Ójöfn laun á dagskrá í næstum öld

Fram kemur í sérstakri yfirlýsingu frá stjórn Samtaka hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndunum að hjúkrunarfræðingar hafi fengið nóg af launaójöfnuði og kalla þeir eftir pólitískum viðbrögðum til að takast á við ósanngjarnan launamun í störfum sem krefjast sambærilegrar menntunar.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þar segir enn fremur að í yfirlýsingunni sé vísað í könnun á launakjörum sem sýni að launamunur karla og kvenna sé umtalsverður og konur í hefðbundnum kvennagreinum, eins og til að mynda hjúkrun, séu með um 80% af launum í karlagreinum þar sem fyrir er að fara svipuðu menntunarstigi.

Þar segi enn fremur að þróun heilbrigðismála á þessari öld muni þýða að vægi hjúkrunarstarfa eigi eftir að aukast og skortur á hjúkrunarfræðingum sé því alvarleg staðreynd. Bent sé á að ójöfn laun hafi verið á dagskrá stofnfundar Samtaka hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndunum árið 1920 og tæpri öld síðar séu þau enn á dagskrá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert