Segja gróðasjónarmið ráða för

Vigdís Finnbogadóttir og Friðrik Ólafsson.
Vigdís Finnbogadóttir og Friðrik Ólafsson. Ljósmynd/Hrókurinn

Þrír heiðursborgarar Reykjavíkur, frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, Þorgerður Ingólfsdóttir kórstjóri og Friðrik Ólafsson stórmeistari, afhentu borgarstjóra og formanni borgarráðs áskorun í dag þar sem lagst er gegn byggingu hótels í Víkurgarði.

Fram kemur í tilkynningu að fjórði heiðursborgarinn, Erró, styðji áskorunina en hafi verið erlendis og gat þess vegna ekki verið við afhendinguna.

Í áskoruninni kemur fram að Víkurgarður sé einn elsti kirkjugarður landsins og helgistaður í höfuðborginni. Þar hafi fólk síðast verið jarðsett árið 1883 og fólk eigi hvílustað sem lagði grunn að höfuðstað Íslands og markaði djúp spor í þjóðarsöguna.

Þorgerður Ingólfsdóttir.
Þorgerður Ingólfsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Árið 2016 voru fluttar brott jarðneskar leifar fólks úr hvílustað þess í Víkurgarði til að rýma fyrir hótelinu. Fáheyrt er að jarðneskar leifar fólks í vígðum reit séu látnar víkja fyrir veraldlegri byggingu. Þetta er gróf vanvirðing við söguna og minningu forfeðra okkar,“ kemur fram í áskoruninni.

„Enn ber byggðin í Kvosinni hið geðfellda yfirbragð sem þetta fólk ljáði henni og mikilvægt er að verja og vernda. Andi staðarins og saga má ekki týnast í hringiðu stundarhagsmuna,“ segir þar enn fremur.

Erró.
Erró. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Heiðursborgararnir segja að peningar ráði gjörðum við ákvörðunina um að leyfa byggingu hótels, ekki menning og saga. 

„Við skorum því á Reykjavíkurborg og byggingaraðila að láta þegar í stað af fyrirhuguðum áformum, sem mundu fyrirsjáanlega valda óbætanlegum spjöllum á þessum viðkvæma og söguhelga reit í hjarta höfuðborgarinnar. Við erum þess fullviss að afkomendur okkar muni um alla framtíð verða þakklátir ef svo giftusamlega tækist til að horfið yrði frá þessum áformum og Víkurgarði þyrmt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert