Tíu úrskurðir og dómar í sama málinu

Verjendur mæta til dóms í dag ásamt Lárusi Welding, fyrrverandi …
Verjendur mæta til dóms í dag ásamt Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aurum-málið hefur nú verið í samtals sex ár fyrir dómstólum hér á landi og gæti tekið lengri tíma fari það á ný fyrir Hæstarétt. Úrskurðir og dómar í tengslum við rekstur málsins eru samtals orðnir tíu og hafa þar af níu þeirra fengið úrlausn Hæstaréttar. Þetta var meðal þess sem kom fram í upphafi málflutnings Ólafs Haukssonar héraðssaksóknara við Landsrétt í morgun.

Sagði Ólafur fjölda úrskurða sem þurfti að fá niðurstöðu um, auk áfrýjana, og ógildingu Hæstaréttar á upphaflega málinu vera helstu ástæður fyrir löngum tíma fyrir dómi.

Eins og sjá má á meðfylgjandi tímalínu hefur málið farið fram og til baka, en upphaflega bar það málanúmer í héraðsdómi með ártalið 2012. Yfir það tímabil hafa þeir fjórir sem ákærðir voru verið með stöðu sakborninga, ef undan er skilið að sýknudómi yfir Bjarna Jóhannessyni, fyrrverandi viðskiptastjóra hjá Glitni, var ekki áfrýjað í lok árs 2016 og þar með féll málið niður gegn honum.

Þeir Lár­us Weld­ing, fyrr­ver­andi banka­stjóri Glitn­is, Magnús Arn­ar Arn­gríms­son, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tækja­sviðs bank­ans og Jón Ásgeir Jóhannesson fjárfestir eru hins vegar enn aðilar að málinu, en þeir voru allir ákærðir fyrir annaðhvort umboðssvik eða hlutdeild í umboðssvikum við 6 milljarða lánveitingu í tengslum við viðskipti með bréf skartgripafélagsins Aurum.

Skýrslutaka fór fram í dag fyrir Landsrétti og hófst málflutningur saksóknara í framhaldinu. Á morgun er svo gert ráð fyrir málflutningi verjenda.

Við tímalínuna hafa eftirfarandi atburðir bæst við frá því að málið var tekið fyrir í héraðsdómi árið 2016:

24. nóv 2016 – Lárus og Magnús sakfelldir. Jón Ásgeir og Bjarni sýknaðir.

Jan 2016 – Ríkissaksóknari áfrýjað hluta Jóns Ásgeirs og verjendur Lárusar og Magnúsar áfrýja sínum hluta. Hluta Bjarna er ekki áfrýjað.

8. maí 2018 – Undirbúningsþinghald í Landsrétti. Dóminn munu skipa þrír dómarar og tveir sérfróðir meðdómendur.

24. sept 2018 – Aðalmeðferð fyrir Landsrétti hefst.

mbl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka