Ekki eru nein siðferðisleg rök sem mæla gegn bólusetningum barna í ljósi siðalögmála og með hliðsjón af því víðtæka samþykki sem ríkir meðal lækna og heilbrigðisstarfsfólks um virkni, ágæti og öryggi þeirra. Þetta er niðurstaða meistararitgerðar Fannars Ásgrímssonar sem lauk meistaranámi í hagnýtri siðfræði frá Háskóla Íslands í vor. Hann hélt erindi um niðurstöðurnar á fundi í HÍ fyrr í dag, en sérstakur gestur á fundinum var Haraldur Briem, settur sóttvarnalæknir.
Siðalögmálin sem um ræðir eru sjálfræði, skaðleysi, velgjörð og réttlæti, en þeim er ætla að standa vörð um almennt siðferði. Fannar sagði sjálfræðislögmálið mest vandmeðfarið þegar kæmi að bólusetningum barna, þar sem þau börn væru ekki sjálfráða. Þá skorti þau skilning og þroska til að geta metið ávinning og áhættu. Ákvörðunin væri því í höndum foreldra og mikilvægt væri þeir fengju réttar upplýsingar frá heilbrigðisstarfsfólki.
Hvað skaðleysi varðar þá sagði hann ríka ábyrgð á foreldrum að valda börnum sínum ekki skaða. Þetta væri hins vegar flókið þegar kæmi að bólusetningum því þær væru ekki einkamál á milli foreldra og barns. Með því að bólusetja ekki væri barninu ekki bara hættara við smitsjúkdómum heldur einnig hugsanlegur smitberi og gæti smitað aðra einstaklinga.
Ástæðan fyrir því að sumir foreldrar ættu engu að síður auðvelt með að halda að sér höndum væri sú að mörgum þætti aðgerðaleysi betra en aðgerðin. „Ef ég ákveð að bólusetja ekki barnið mitt og vona það besta, þar sem sjúkdómarnir eru hvort eð er ekki algengir á Íslandi, en barnið veikist engu að síður í kjölfarið, þá er ekki um að ræða beina aðgerð hjá mér, þetta er bara eitthvað sem kom upp. Ef foreldrar hins vegar láta bólusetja barnið og það kemur eitthvað upp þá er algengara að þeim finnist sökin liggja hjá þeim.“
Fannar sagði að þeir sem væru hlynntir bólusetningum teldu oft að andstæðingar bólusetninga væru illa upplýst eða illa menntað fólk. Allar rannsóknir gæfu hins vegar til kynna að það væri þveröfugt. „Þeir sem hafna bólusetningum eru yfirleitt með meiri menntun og hærri tekjur. Meirihlutinn er hvítt fólk, oftast í hjónabandi. Þannig að þetta stangast á við þá almennu hugsun sem kemur upp að þetta sé illa upplýst fólk og einhverjir vitleysingar. Það er alls ekki svo og það sem meira er að þeir sem hafna bólusetningum eru líklegri til að hafa meiri vitneskju um bóluefni og bólusetningar heldur en foreldrar sem kjósa að bólusetja.“
Hann benti að að kerfið á Íslandi væri mjög straumlínulagað og ekki væri gert ráð fyrir því að foreldrar þyrftu að taka sérstaka ákvörðun um bólusetningar barna. Þær væru einfaldlega samfélagslegt norm og hluti af ungbarnaverndinni.
„Ef við ættum að setja það í hendur allra foreldra að taka upplýsta ákvörðun um hvert eitt og einasta bóluefni þá held ég að við myndum sjá bólusetningartíðni hrynja. Af þeirri einföldu ástæðu að við höfum ekki næga þekkingu og aðgang að réttum upplýsingum til þess að taka upplýsta ákvörðun.“
Fannar benti einnig á að að vitað væri að mjög lágt fólks hlutfall gæti fengið alvarlegar aukaverkanir af bólusetningum. En þó að hlutfallið væri lágt væri mikilvægt að reyna að lækka það enn frekar. Það væri þó líklega aldrei hægt að koma alveg í veg fyrir að einhver börn fengju alvarlegar aukaverkanir, enda væri ítarleg sjúkrasaga ungra barna ekki til staðar.
„Þegar börn sem eru viðkvæm fyrir bólusetningum eru bólusett, þá er það að uppgötvast á sama tíma og það uppgötvast að þau eru viðkvæm fyrir einhverju innihaldi bóluefna. En það kemur ekki í ljós fyrr en þau eru bólusett. Þetta hlutfall er hins vegar mjög lágt og það er rosalega erfitt að nota það sem réttlætingu fyrir því að bólusetja ekki.“
Fannar sagði þó oft talað um árangur bólusetninga sem þeirra helsta Akkilesarhæl. „Með reglulegum bólusetningum í þetta langan tíma er verið að halda sjúkdómum í skefjum. Það eru kannski einhverjir sem hafa upplifað mislinga og aðra sjúkdóma en við yngra fólkið höfum ekki séð þetta. Þegar alvarlegar afleiðingar sjúkdóma eru ekki sýnilegar þá förum við auðvitað að beina athyglinni að skaðseminni, sem í þessu tilfelli er lág prósenta fólks sem fær einhverjar aukaverkanir af bóluefninu. Árangurinn er því á sama tíma að grafa undan bólusetningum.“
Hann benti á að það væri mikið af röngum og jafnvel réttum upplýsingum í umferð á samfélagsmiðlum sem gætu vakið upp múgæsingu. Það versta við samfélagsmiðlana væri hins vegar að það væri enginn með næga þekkingu að svara fyrir upplýsingarnar. Í því samhengi sagði hann læknastéttina mega auka fræðslu og upplýsingagjöf til einstaklinga í gegnum samfélagsmiðla. Þannig að fólk þyrfti ekki að sækja upplýsingarnar sjálft inn á ákveðna síðu.
„Leiðin sem við notum til að miðla upplýsingum til foreldra er að verða úrelt. Það er búið að tala um að verið sé að efla kerfið til að geta kallað fólk inn í bólusetningar, en það sem ég held að sé einna mikilvægast í dag, og landlæknisembættið má ekki trassa, það er að átta sig á því hvernig 21. öldin virkar með tæknina. Hvernig fólk er að finna upplýsingar og neyta þeirra. Þetta má gera bæði með því að svara fyrir upplýsingar og nálgast foreldra með upplýsingar á þeim miðlum sem þeir eru á.“