Haldnir hafa verið tveir fundir í Vík í Mýrdal með hagsmunaaðilum þar sem gerð jarðganga í gegnum Reynisfjall og gerð láglendisvegar hefur verið reifuð. M.a. hefur verið sagt frá reynslunni af rekstri Hvalfjarðarganga.
Einar Freyr Elínarson oddviti kvaðst vona að frekari fundahöld um málið gætu orðið á næstunni. Hann tók fram að málið væri ekki komið á það stig að farið væri að formfesta hugmyndir eða leita fjárfesta.
Í yfirliti um innihald samgönguáætlunar, sem samþykkt var í ríkisstjórn í síðustu viku, kom fram að hringvegur um Mýrdal og jarðgöng um Reynisfjall væru sett á 2.-3. tímabil áætlunarinnar. Verkefnið er upp á 5,3 milljarða króna. Þar sagði að leitað yrði leiða til að fjármagna verkefnið í samstarfi við einkaaðila, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.