Önnur vídd með nýjum velli

Guðni Bergsson á fundinum í dag.
Guðni Bergsson á fundinum í dag. mbl.is/​Hari

Mikilvægt er að Íslendingar sæki ráðgjöf varðandi byggingu nýs þjóðarleikvangs erlendis frá vegna þess að sérfræðiþekking hérlendis við að byggja stóra leikvanga er takmörkuð. Þetta sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, á ráðstefnu um þjóðarleikvang sem var haldin í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Guðni sagði Laugardalsvöll vera orðinn 60 ára gamlan og tíma kominn á endurbætur. Leikvangurinn sé mjög opinn fyrir veðri og vindum og til að viðhalda góðum árangri íslensku landsliðanna undanfarin ár þurfi viðeigandi leikvang þar sem hægt er að spila að vetri til.

Frá fundinum í höfuðstöðvum KSÍ.
Frá fundinum í höfuðstöðvum KSÍ. mbl.is/​Hari

Vilja nútímalegan og skemmtilegan völl

Hann nefndi að margar kannanir og viðskiptaáætlanir hafi verið gerðar varðandi næstu skref í málinu og að starfshópar hafi skilað góðri vinnu. KSÍ og Reykjavíkurborg hafi fengið ráðgjöf, meðal annars frá fyrirtækinu Borgarbragi.

Í máli Guðna kom fram að hughreystandi væri að finna fyrir stuðningi ríkisins og að samstarf þess við Reykjavíkurborg væri mikilvægt. „Við viljum leikvang sem er nútímalegur og góður staður þar sem fólk getur skemmt sér í góðu andrúmslofti.“

Guðni ásamt Tracey Crouch, íþróttamálaráðherra Bretlands, og Lilju Alfreðsdóttur, mennta- …
Guðni ásamt Tracey Crouch, íþróttamálaráðherra Bretlands, og Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, á fundinum. mbl.is/​Hari

Spilað við góðar aðstæður allt árið

Ekki er hentugt að hafa frjálsíþróttabraut á nýjum leikvangi, að mati Guðna. Hann bætti því við að Laugardalsvöllur væri skilgreindur sem vetrarleikvangur og að mikill ókostur yrði ef íslenska karlalandsliðið geti ekki spilað heimaleiki sína á Laugardalsvelli í undankeppni EM 2020 í mars og nóvember eins og til stendur að gera í undankeppninni samkvæmt skipulagi Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA.

Formaðurinn sagði að önnur vídd myndi skapast fyrir KSÍ og samfélagið í heild sinni ef tekin verður ákvörðun um að byggja leikvanginn. Hægt verði að spila við góðar aðstæður hvenær sem er á árinu og að stórir tónleikar yrðu haldnir þar í ríkari mæli.  Hann sagði að aukinn kostnaður vegna þaks vallarins ætti að borgast upp á 10 árum vegna afleiddra tekna af frekari viðburðum og kvaðst jafnframt vona að nýr leikvangur veiti yngri kynslóðinni innblástur.

Nefndi hann að bikarúrslitaleikir gætu mögulega farið fram í lok leiktíðar, í október eða jafnvel síðar og að íslensk knattspyrnufélög gætu spilað á vellinum að vetri til ef þau komast áfram í riðlakeppni í Evrópukeppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert