„Við erum öll sátt við breytingar en þær mega ekki koma verr út fyrir þá sem nota kerfið í dag,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands. Málefnahópur ÖBÍ um kjaramál stendur fyrir málþingi á Grand hótel í dag, sem ber yfirskriftina Frá stjórnarskrá til veruleika.
Markmið málþingsins er að skapa breiðari umræðu um fyrirætlaða heildarbreytingu á almannatryggingarkerfinu. Þar verður meðal annars fjallað um réttarvernd fatlaðs fólks í dómskerfinu, framfærslu fatlaðs fólks í breyttu kerfi og reynsluna af kerfisbreytingu í Danmörku.
„Við fengum Lars Midtiby frá systursamtökum ÖBÍ í Danmörku til að koma og fara yfir hvernig starfsgetumat, sem stjórnvöld hérna vilja koma á í stað örorkumats, hefur komið út í Danmörku.,“ segir Þuríður Harpa. „Við vitum að það hefur komið mjög illa út, fólk hefur komið illa út úr þessu starfsgetumati af því atvinnulífið hefur ekki tekið við sér eins og það átti að gera.“
Þuríður Harpa segir mikilvægt að atvinnulífið allt taki við sér og skapi rými fyrir fólk með skerta starfsgetu, verði starfsgetumat tekið upp hér á landi í stað örorkumats. „Atvinnulífið þarf að aðlaga sig, bjóða upp á hlutastörf og sveigjanlega vinnutíma, bæta aðgengi. Það er ýmislegt sem þarf að laga.“
Helst af öllu segir Þuríður Harpa þó að við Íslendingar þurfum að tileinka okkur hugarfarsbreytingu. „Málþinginu er ætlað að skapa breiðari umræðu og varpa ljósi á það hvaða víti ber að varast.“
Fulltrúar í samráðshópi um breytt framfærslukerfi almannatrygginga mun svara spurningum málefnahóps ÖBÍ um kjaramál á málþinginu, en samráðshópnum er ætlað að koma með tillögur að nýju greiðslukerfi sem styður við markmið starfsgetumatsins.
„Stjórnvöld sjá þetta í þeim hyllingum að þetta komi til með að einfalda kerfið. Það eru allir mjög sáttir við það að fá einfaldara almannatryggingakerfi, en við þurfum að vera varkár að það komi ekki niður á örorkulífeyrisþegum.“
Málþingið hefst klukkan 13 og má fylgjast með beinni útsendingu frá Grand hótel á vef Öryrkjabandalagsins.