Málflutningur í Aurum-holding málinu kláraðist fyrir Landsrétti í gær eftir tveggja daga þinghald. Verjendur hinna ákærðu kröfðust sýknu eða frávísunar, en ákæruvaldið fór fram á fangelsi yfir þeim þremur sem ákærðir eru, frá tveimur árum upp í fimm ár. Hins vegar varð breyting á kröfu ákæruvaldsins frá því í héraði og var farið fram á 5 ára dóm yfir Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, en í héraði var farið fram á eins árs dóms og var hann dæmdur til þeirrar refsingar. Þessi breyting á sér þó eðlilega skýringu og tengist öðru hrunmáli sem er í gangi.
Í málinu eru þeir Lárus Welding, og Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, eru ákærðir fyrir umboðssvik vegna lánveitingarinnar. Þá er Jón Ásgeir Jóhannesson, sem var einn aðaleigandi bankans á þessum tíma, ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum þeirra Lárusar og Magnúsar og til vara fyrir hylmingu og til þrautavara fyrir peningaþvætti, með því að hafa í krafti áhrifa sinna í Glitni beitt Lárus og Bjarna fortölum og þrýstingi og hvatt til þess, persónulega og með liðsinni Jóns Sigurðssonar, varaformanns stjórnar Glitnis Banka hf., og Gunnars Sigurðssonar, forstjóra Baugs Group, að veita umrætt lán. Er lánið sagt hafa verið Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og félaginu Fons til hagsbóta.
Ákæruvaldið fór fram á tveggja ára fangelsi yfir Magnúsi Erni, en þetta er sama krafa og var fyrir héraðsdómi, sem og dómurinn sem hann hlaut. Var þá um að ræða hegningarauka á fyrri dóm Magnúsar sem hann hafði hlotið í svokölluðu BK-44 máli. Þar fékk hann einnig tveggja ára dóm. Refsirammi í málum sem þessum er 6 ár.
Í tilfelli Jóns Ásgeirs fór saksóknari fram á fjögurra ára dóm. Það er sama krafa og í héraði, en Jón var þar sýknaður af öllum ákærum.
Í tilfelli Lárusar er hins vegar aðeins flóknari staða uppi. Hann hefur áður verið dæmdur í 5 ára fangelsi í Stím málinu. Þegar Aurum málið fór fyrir héraðsdóm fór ákæruvaldið því aðeins fram á eins árs fangelsi yfir Lárusi, enda um hegningarauka að ræða og hámarkið 6 ár. Fékk Lárus þann dóm og var því kominn upp í hámarkið. Í millitíðinni meðan dæmt var í Aurum málinu í héraði og það kom fyrir Landsrétt var Stím málið hins vegar tekið fyrir í Hæstarétti og var niðurstaðan ógilt og málið sent aftur í hérað. Þar var málið svo tekið fyrir á ný og hlaut Lárus aftur 5 ára dóm.
Stím málið er hins vegar ekki komið fyrir Landsrétt og því telst Aurum málið vera á undan. Því fór ákæruvaldið nú fram á 5 ára dóm og mun að öllum líkindum fara fram á hegningarauka í því máli þegar það verður tekið fyrir í Landsrétti.
Verjendur Magnúsar og Jón Ásgeirs fóru fram á sýknu í gær, en verjandi Lárusar fór fram á frávísun.