Lögreglan á Suðurnesjum lýsti í kvöld eftir manneskju sem fór í hraðbanka í kvöld til að taka út pening en gleymdi að taka peninginn með sér. „Varst þú í hraðbanka fyrr í kvöld en gleymdir að taka peninginn?“ er byrjunin á Facebook-færslu lögreglunnar um málið.
Þar kemur fram að tveir ungir herramenn hafi verið á eftir viðkomandi í röðinni. Þeir stukku á eftir þeim sem gleymdi peningunum, sáu hann aka á brott en náðu viðkomandi ekki.
„Þess í stað komu þeir til okkar og báðu um aðstoð við að finna þig. Þannig að nú erum við að aðstoða þessa 2 flottu menn að finna þig, eigandann að þessum peningum,“ kemur fram í færslu lögreglunnar.
Sá eða sú sem gleymdi peningunum getur farið með kvittunina úr bankanum til lögreglu, sagt hversu mikið var tekið út og þannig endurheimt aurinn.