„Það verður að grípa til aðgerða sem fjölga íbúðum fyrir tekjulágt fólk, félagslegu húsnæði og byggja upp traustan og manneskjulegan leigumarkað varanlega. Á Íslandi er nefnilega stór hópur fólks með lágar tekjur sem teljast þó of háar fyrir fjárhagsaðstoð. Þetta fólk getur illa fótað sig á húsnæðismarkaðnum.“
Þetta sagði Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í sérstakri umræðu um húsnæðismál á Alþingi í dag. Húsnæði væri ekki lúxus sem standa ætti aðeins vel stæðu fólki til boða heldur ætti það þvert á móti að vera ein af grunnþörfum allra. „Það er ekki einungis til að skýla sér fyrir veðri og vindum, þótt það sé auðvitað nauðsynlegt, heldur er tryggt húsnæði staður sem skapar einstaklingum og fjölskyldum öryggi.“
Sagði hann Samfylkinguna hafa lagt fram tillögu í átta liðum um það hvernig bæta mætti húsnæðismarkaðinn sem hann vonaði að Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra kynnti sér og nýtti. „Ég geri mér grein fyrir því að þær munu ekki leysa allan okkar vanda en þær eru nauðsynleg fyrstu skref í öfuga átt við þau sem stjórnvöld hafa tekið síðustu ár, ýmist með skeytingarleysi eða beinlínis vondum aðgerðum.“
Spurði Logi Ásmund hvort hann væri tilbúinn til að beita sér fyrir frekari stofnstyrkjum til uppbyggingar á hagkvæmum leiguíbúðum og hvort ráðherrann væri tilbúinn að leggja fram frumvarp um aukna skyldu allra sveitarfélaga þegar kæmi að félagslegu húsnæði þannig að nokkur sveitarfélög standi ekki uppi ein með verkefnið.
Félagsmálaráðherra reifaði ýmsar aðgerðir í svari sínu sem ríkisstjórnin hefði þegar gripið til eða til stæðu til þess að taka á vanda húsnæðismarkaðarins. Meðal annars með því að styrkja stjórnsýsluna með því að flytja Mannvirkjastofnun og regluverk í kringum byggingarmarkaðinn yfir til félagsmálaráðuneytisins.
Einnig væri unnið að aðgerðum vegna fyrstu kaupenda í samvinnu við Íbúðalánasjóð. Þar væri horft til úrræða sem stjórnvöld í nágrannalöndum íslands hefðu beitt en að auki væri verið að vinna að og skoða tillögur sem byggðu á ráðstöfun lífeyrissparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð, svokallaðri svissneskri leið.
Þá hefði Íbúðalánasjóður einnig verið að skoða leiðir til þess að efla leigumarkaðinn og væri meðal annars í skoðun að stofna sérstakt óhagnaðardrifið leigufélag þar inni sem hefði það markmið að reka leigufélag eftir óhagnaðardrifnum sjónarmiðum.
„Hins vegar er eitt sem skiptir máli að koma líka inn á hérna og [ég] vil undirstrika að sá sem hér stendur er að beita sér í þeim málum sem háttvirtur þingmaður spurði um, en það þarf fleiri lóðir. Það þarf fleiri lóðir vegna þess að ekkert af því sem var nefnt hér að framan gengur eftir ef við fáum ekki aukið framboð af lóðum og byggingarlandi til þess að byggja á.“