Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir framkomna kröfu stéttarfélagsins Framsýnar á Húsavík á hendur atvinnurekendum munu valda öllum tjóni og sér hafi brugðið við að sjá þá kröfu Framsýnar að lágmarkslaun verði 375 þúsund krónur.
„Á sama tíma og verkalýðsfélögin eru að kalla eftir ábyrgð atvinnulífsins og skilningi á stöðu þeirra sem lægst hafa launin virðast mörg þeirra sýna takmarkaðan skilning á stöðu fyrirtækjanna sem félagsmenn verkalýðsfélaganna starfa hjá,“ segir Halldór Benjamín.
Í umfjöllun um kjaraviðræður í Morgunblaðinu í dag segir Halldór kröfuna leiða til 200 til 300 milljarða hækkunar launakostnaðar á ári.