„Við erum þrjú sem sitjum uppi með meinsæri, núna kæri ég niðurstöðu endurupptökunefndar því hún var í hæsta máta vafasöm,“ sagði Erla Bolladóttir eftir að dómur var kveðinn upp í Hæstarétti í dag í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
Hún var ásamt Sævari Cieselski og Kristjáni Viðari Viðarssyni fundin sek um meinsæri í málinu með því að hafa í sameiningu lagt á ráðin um að varpa sök á drápinu á Geirfinni Einarssyni á Einar Bollason.
„Þetta er auðvitað tilfinningaríkt augnablik að Hæstiréttur skuli hafa án fyrirvara sýknað alla en þetta er auðvitað ekki búið,“ sagði Erla í samtali við mbl.is eftir að dómur var kveðinn upp í dag. Endurupptökunefnd komst að þeirri niðurstöðu að hennar mál skyldi ekki tekið upp að nýju og ætlar hún að kæra hana til héraðsdóms á næstunni.
„Ég vildi óska að það hefði verið hægt að klára þetta allt núna, þetta er orðið ofboðslega langt,“ sagði Erla.