Venjuleg rúm en ekki sjúkrarúm verða á sjúkrahótelinu við Landspítalann sem ætlunin er að taka í notkun fyrir áramót. Alls 77 herbergi verða á hótelinu.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins vakti það athygli innan heilbrigðisgeirans að ekki voru boðin út sjúkrarúm á hótelinu. Þá meðal annars með hliðsjón af því að ekki sé víst að allir sjúklingarnir verði ferðafærir. Án sjúkrarúma verði örðugt að aka sjúklingum milli herbergja.
Má benda á að hótelið er tengt við fæðingardeild með tengigöngum. Sólrún Rúnarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og gæðastjóri á flæðisviði Landspítalans, segir að við val á rúmum hafi verið tekið mið af þörf. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag bendir hún á að hluti gesta muni koma í rannsókn og verði því ekki hefðbundnir sjúklingar.