Innlagnakrísur á Landspítala

Landspítalinn við Hringbraut
Landspítalinn við Hringbraut mbl.is/Ómar Óskarsson

Landspítalinn hefur tvisvar glímt við alvarlega innlagnakrísu á síðustu dögum, sem er óvenjulegt á þessum tíma árs. Þetta kemur fram í forstjórapistli Páls Matthíassonar.

„Þegar þetta er skrifað bíða 110 einstaklingar með færni- og heilsumat á Landspítala eftir hjúkrunarheimili og til viðbótar eru ríflega 20 á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi á vegum spítalans. Þá eru þeir ótaldir sem bíða annarra úrræða, s.s. endurhæfingar eða heimahjúkrunar til að geta snúið aftur heim,“ skrifar Páll.

Hann segir spítalann búa eins vel að þessum einstaklingum og kostur er, en að ljóst sé að bráðasjúkrahús henti þessu fólki alls ekki.

„Samhliða þessu verður hefðbundin bráðastarfsemi sérstök áskorun, þegar erfiðlega gengur að koma sjúklingum inn á bráðadeildir af bráðamóttökunni, þar sem fyrsta mat og meðferð fer fram.“

Páll segir ummönnun fólks sem lokið hefur læknisfræðilegri meðferð á sjúkrahúsi sé á ábyrgð allra í samfélaginu. Hann segir þá uppbyggingu sem heilbrigðisráðherra kynnti í vor sérstaklega ánægjulega, en að engu að síður sé ljóst að til skemmri tíma horfum við fram á erfiða tím í þjónustu við þennan viðkvæma hóp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert