Flugfreyjufélag Íslands fordæmir ákvörðun Icelandair um að segja upp flugfreyjum og flugþjónum í hlutastörfum sem ekki eru tilbúnar til að ráða sig í fulla vinnu hjá flugfélaginu. Í ályktun félagsins sem var samþykkt á fjölmennum félagsfundi í gær er skorað á Icelandair að draga ákvörðunina til baka.
Vika er liðin síðan Flugfreyjufélag Íslands fundaði á opnum fundi í Hlíðarsmára.
„Um er að ræða alvarlegt brot á kjarasamningsbundnum réttindum, sem verða ekki tekin af með einhliða þvingunaraðgerðum. Aðgerðir þessar ganga þvert á þá umræðu í samfélaginu, bæði af hálfu atvinnurekanda og launþegahreyfingarinnar um styttingu vinnuviku og sveigjanlegan vinnutíma,“ segir í ályktuninni.
Þar er einnig skorað á Icelandair að ganga til viðræðna við FFÍ vegna aðhaldsaðgerða með vísan í bréf sem stjórn Flugfreyjufélags Íslands sendi forsvarsmönnum Icelandair 12. september.
Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir í samtali við mbl.is að málinu verði vonandi stefnt fyrir Félagsdóm í næstu viku. Eftir atvikum verður málinu stefnt til annarra eftirlitsstofnana, segir hún, og á þar við Jafnréttisstofu út frá jafnréttislögum um jafna meðferð karla og kvenna.
„Það er tiltekið í lögunum að atvinnurekendur skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldum. Ráðstafanirnar skuli miða að því að auka sveigjanleika á skipulagningu vinnu og vinnutíma, þannig að það sé tekið tillit til fjölskylduaðstæðna starfsmanna,“ greinir hún frá.
Berglind segir að Flugfreyjufélagið hafi ekkert heyrt frá Icelandair þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fá flugfélagið til að draga ákvörðunina til baka. „Það er enn þá þungt hljóð í okkar fólki. Því er brugðið og líka hvernig var staðið að þessum aðgerðum.“
Hún kveðst ekki hafa heyrt af neinum uppsögnum á meðal flugfreyja og flugþjóna. „Ég hef ekki sóst eftir þeim upplýsingum sérstaklega en það standa allir í þeirri von að félagið muni draga þessa ákvörðun til baka. Í það minnsta að það fari í mildari aðgerðir og virði þessi sjónarmið sem eru uppi í landinu um sveigjanlegan vinnutíma og styttri vinnuviku. Ég held að fólk sé enn þá að halda í þá trú,“ bætir Berglind við.
Ályktunin í heild sinni:
„Á fjölmennum félagsfundi Flugfreyjufélags Íslands með félagsmönnum sem starfa hjá Icelandair var einróma samþykkt eftirfarandi ályktun:
Við fordæmum ákvörðun Icelandair um að segja upp flugfreyjum og flugþjónum í hlutastörfum.
Um er að ræða alvarlegt brot á kjarasamningsbundnum réttindum, sem verða ekki tekin af með einhliða þvingunaraðgerðum. Aðgerðir þessar ganga þvert á þá umræðu í samfélaginu, bæði af hálfu atvinnurekanda og launþegahreyfingarinnar um styttingu vinnuviku og sveigjanlegan vinnutíma.
Félagsfundur skorar á Icelandair að ganga til viðræðna við FFÍ vegna aðhaldsaðgerða með vísan í bréf sem stjórn Flugfreyjufélags Íslands sendi forsvarsmönnum Icelandair þann 12. september sl.
Flugfreyjur og flugþjónar skora á Icelandair að draga þessa ákvörðun sína til baka.“