Óvenjumikið líf var við höfnina á Tálknafirði í gær. Þar voru tíu dráttarbílar samtímis með jafnmarga fjörutíu feta gáma með minkafóðri sem þeir fluttu síðan í skip á Ísafirði.
Klofningur er með fiskþurrkun á Suðureyri, Ísafirði og Tálknafirði og safnar þangað úrgangi frá fiskvinnslum. Þegar búið er að hirða hausa, hryggi og fleira sem hægt er að vinna og þurrka sérstaklega fyrir erlenda markaði er afgangurinn hakkaður í loðdýrafóður og frystur.
„Það hefur verið mottóið hjá okkur að nýta allan fiskinn,“ segir Guðni Einarsson, framkvæmdastjóri Klofnings, í Morgunblaðinu í dag.