Velta bókaútgáfu úr 4 milljörðum í 2,5

Veltan hefur dregist saman síðasta áratuginn.
Veltan hefur dregist saman síðasta áratuginn. mbl.is/Þórður Arnar

Velta bókaútgáfu á Íslandi í neðra virðisaukaskattsþrepi hefur farið úr rúmum fjórum milljörðum króna í tæpa 2,5 milljarða króna á síðustu 9 árum.

Þetta kemur fram í greinargerð sem fylgir frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra um stuðning við útgáfu bóka á íslensku. Markmiðið með lögunum er að efla útgáfuna með því að veita bókaútgefendum tímabundinn stuðning í formi endurgreiðslu á hluta kostnaðar sem fellur til við útgáfu bóka á íslensku.

Fram kemur að bókaútgáfa hafi glímt við versnandi rekstarumhverfi síðastliðinn áratug og nemur veltusamdrátturinn 40,5 % á tímabilinu, eða að jafnaði um 5,6% árlega.

Lagt er til að hlutfall endurgreiðslu skuli vera 25% af kostnaði sem fellur til við útgáfu bókar. Beiðni um endurgreiðslu skal berast til sérstakrar þriggja manna nefndar, í síðasta lagi níu mánuðum eftir útgáfu bókar, sem metur hvort skilyrði fyrir endurgreiðslu séu uppfyllt.

Sé miðað við ársreikninga og skattframtöl fyrirtækja í bókaútgáfu er í frumvarpinu áætlað að kostnaður ríkissjóðs vegna stuðningsins verði um 300–400 milljónir króna á ári miðað við 25% endurgreiðslu.

Við samningu frumvarpsins var tekið mið af lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi og einnig var litið til laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

Lilja Alfreðsdóttir.
Lilja Alfreðsdóttir. mbl.is/​Hari

„Það liggur því fyrir að verulegur og viðvarandi samdráttur hefur átt sér stað hjá bókaútgefendum síðustu níu ár. Ástæður samdráttarins má einna helst rekja til breyttrar samfélagsgerðar, örrar tækniþróunar og annarra þjóðfélagsbreytinga. Tilkoma ýmiss konar afþreyingarefnis, aukið framboð lesefnis og myndefnis á netinu gegn lágu eða engu endurgjaldi, snjalltækja og annarra miðla, hefur leitt til þess að lestur bóka á íslenskri tungu hefur farið minnkandi og velta bókaútgefenda að sama skapi dregist saman. Þessi þróun skapar mikla ógn við tungumál fámennrar,“ segir í greinargerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert