Boðun vinnustöðvunar úrslitakostur

Vinnu­stöðvun­in hefst klukk­an sex að morgni 15. nóv­em­ber hafi samn­ing­ar …
Vinnu­stöðvun­in hefst klukk­an sex að morgni 15. nóv­em­ber hafi samn­ing­ar ekki tek­ist fyr­ir þann tíma. mbl.is/ÞÖK

„Krafan er skýr; við teljum að þessir starfsmenn séu á íslenskum vinnumarkaði,“ segir Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands. Félagar í Flugfreyjufélagi Íslands hafa samþykkt að boða til ótíma­bund­inn­ar vinnu­stöðvun­ar flug­freyja um borð í flug­vél­um Pri­mera sem fljúga með farþega frá og til Íslands.

Flugfélagið hefur ekki viljað gera kjarasamning við Flugfreyjufélagið og greiðir því ekki samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Flugliðar Primera starfa sem verktakar en í greinargerð sem lögfræðingur ASÍ lagði fyrir félagsdóm fyrr á árinu kom m.a. fram að Pri­mera Air hefði starfs­stöð hér á landi, og hér giltu ís­lensk lög og rétt­ar­regl­ur.

Vinnu­stöðvun­in hefst klukk­an sex að morgni 15. nóv­em­ber hafi samn­ing­ar ekki tek­ist fyr­ir þann tíma.

Flugfreyjufélagið samþykkti vinnustöðvun gegn Primera Air í fyrra. Félagsdómur komst þá að þeirri niðurstöðu að vegna formgalla væru aðgerðir ólögmætar vegna þess að ríkissáttasemjari hafði ekki hlutast til um málið áður en gripið var til aðgerða.

Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands.
Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands. Ljósmynd/Heimasíða Flugfreyjufélagsins

„Þau fljúga frá og til Íslands; heimahöfnin er á Íslandi. Við teljum að þau eigi að njóta lágmarksréttinda í sinni starfsgrein,“ segir Berglind.

Í áðurnefndri greinargerð kom enn fremur fram að meðallaun nýliða hjá ís­lensku flug­fé­lög­un­um væru á bil­inu 405 til 413 þúsund krón­ur á mánuði en aðeins 216 þúsund krón­ur í heild­ar­laun hjá Pri­mera Air, sem verk­taka­laun.

Berglind segir að krafan sé einföld, að gerður sé kjarasamningur við flugliða Primera Air. „Hvorki þeir né stjórnvöld hafa gripið inn í og að boða vinnustöðvun er úrslitakostur,“ segir Berglind og bætir við að boltinn sé nú hjá forsvarsmönnum Primera Air.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert