Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Menningarsetur múslima til að greiða Stofnun múslima á Íslandi rúmlega 8,6 milljónir í vangoldna leigu og málskostnað, auk dráttarvaxta. Stofnun múslima var jafnframt sýknuð af kröfum Menningarsetursins um að viðurkenndur yrði leiguréttur Menningarsetursins að Ýmishúsinu.
Forsaga deilna félaganna tveggja er löng og tengist hún Ýmishúsinu að Skógarhlíð 20. Stofnun múslima er eigandi hússins, en það var keypt árið 2010. Stofnunin fullyrti árið 2016 að hún hefði gert afnotasamning við Menningarsetrið og að staðið hafi til að gerður yrði húsaleigusamningur. Drög að þeim samningi hafi verið gerð og dagsett 20. desember 2012 og átt að gilda til 31. desember 2023. Næsta dag hafi hins vegar verið ákveðið að breyta fyrirkomulaginu og gefa Menningarmiðstöðinni afnotarétt af hluta hússins án endurgjalds. Þetta hafi verið staðfest með samningi sem er dagsettur 21. desember 2012, en að fyrri samningurinn hafi með þessu verið feldur niður. Í júní 2016 lét Stofnun múslima á Íslandi bera út Menningarsetrið.
Héraðsdómur hafnaði kröfu Menningarsetursins um að fá viðurkenndan leigurétt að húsinu en féllst á gagnkröfu Stofnunar múslima um skaðabætur vegna afnota Menningarsetursins á húsinu á tímabilinu 2015-2016. Telur dómurinn að það hafi komið í veg fyrir að Stofnun múslima gæti hagnýtt sér það, til dæmis með útleigu.
Í niðurstöðu dómsins segir að Stofnun múslima á Íslandi hefði orðið fyrir fjárhagstjóni sem nemi þeim leigutekjum sem hún hefði annars getað aflað sér vegna neðri hæðar húsnæðisins frá og með 2. júlí 2015 til og með 1. júní 2016, alls í 11 mánuði. Upphæðin er metin vera 6.279.438 krónur, auk dráttarvaxta. Auk þess er farið fram á að Menningarsetur múslima á Íslandi greiði málskostnað sem nemur 2.350.000 krónum.