Margrét Kristín Blöndal tónlistarkona, sem betur er þekkt sem Magga Stína, var kjörin nýr formaður Samtaka leigjenda á aðalfundi samtakanna í dag. Auk hennar sitja í framkvæmdastjórn Rósa Jóhannsdóttir varaformaður, Bragi Páll Sigurðarson ritari, Pálína Sjöfn Þórarinsdóttir gjaldkeri og Haraldur Ingi Haraldsson, Kolbrún Jónsdóttir og Þórólfur Júlían Dagsson meðstjórnendur.
Haft er eftir Margréti í tilkynningu frá samtökunum að hún telji óhugarlegt að heyra af aðbúnaði innflytjenda í láglaunastörfum sem greiði starfsmannaleigum stórar fjárhæðir fyrir rúmstæði.
Þá segir hún ekki hægt að láta það viðgangast að heyra af foreldrum á leigumarkaði sem þurfi að flytja með börn sín á milli skólahverfa og okri sem leigjendur búi við. Sé þessi hópur fólks algjörlega óvarinn af stjórnvöldum. „Það er ekki hægt að láta það viðgangast og sitja áfram hljóður hjá. Hvergi í okkar heimshluta er það látið viðgangast að stór leigufélög geti gert út á húsnæðisvanda almennings eins og hér er látið óáreitt,“ er haft eftir Margréti. „Við erum risin upp og ætlum að berjast fyrir réttindum okkar og hagsmunum. Leigjendur þurfa í raun að berjast í bökkum fyrir lífi sínu. Þannig er staðan. Þegar fólk borgar orðið 2/3 af launum sínum í húsaleigu er það að berjast fyrir lífi sínu og barnanna sinna.“
Fram kom á fundinum að stjórn samtakanna muni leita til verkalýðshreyfingarinnar um stuðning og samstarf.
Á fundinum voru gerðar þær breytingar á lögum félagsins að nú er kosið í 34 manna stjórn þar sem sitja leigjendur af öllu landinu og í ólíkri stöðu og hjá mismunandi leigufélögum. Þá kom fram að markmiðið sé að stofna félög innan Samtaka leigjenda sem sinna munu hagsmunagæslu ólíkra hópa. Á föstudaginn næsta verður stofnfundur Félags leigjenda hjá Félagsbústöðum og stofnun Félags leigjenda á Norðurlandi er í undirbúningi.
Samtals sitja 34 í stjórn samtakanna, en þau eru: Aminata Diouf, Anika Noack, Ásdís Helga Jóhannesdóttir, Ásta Gréta Hafberg , Bragi Páll Sigurðarson, Díana María Líndal Stefánsdóttir, Guðmundur H. Helgason, Guðrún Þórsdóttir, Gunnar Ingi Gunnarsson, Gústaf Grönvold, Haraldur Ingi Haraldsson, Helga Snædal, Hildur Oddsdóttir, Hólmsteinn A. Brekkan, Jóhann Már Sigurbjörnsson, Jón Rúnar Sveinsson, Kolbrún Jónsdóttir, Kristján E. Karlsson, Laufey Ólafsdóttir, Magdalena Kristinsdóttir, Magdalena Kwiatkowska, Margrét Kristín Blöndal, Maria Ylfa Lebedeva, Oddur Sigmundsson Báruson, Pálína Sjöfn Þórarinsdóttir, Rán Reynisdóttir, Rósa Jóhannsdóttir, Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir, Sara Björg Kristjánsdóttir, Sólveig Edda Vilhjálmsdóttir, Steingrímur Dúi Másson, Yngvi Ómar Sighvatsson, Þórdís Guðjónsdóttir og Þórólfur Júlían Dagsson.