Félagsfólk í Flugfreyjufélagi Íslands hefur samþykkt að boða til ótímabundinnar vinnustöðvunar flugfreyja um borð í flugvélum Primera sem fljúga með farþega frá og til Íslands.
Vinnustöðvunin hefst klukkan sex að morgni 15. nóvember hafi samningar ekki tekist fyrir þann tíma.
Atkvæðisrétt höfðu 2.097 félagsmenn. Atkvæði greiddu 573 félagsmenn og féllu atkvæði þannig að já sögðu 567, nei sagði einn, fimm seðlar voru auðir eða ógildir.
Deilur Flugfreyjufélags Íslands og Primera hafa staðið lengi. Greint var frá því í febrúar að fulltrúar flugfélagsins mættu ekki á fund sem ríkissáttasemjari hafði boðað í deilunni. Var það sjötti fundur ríkissáttasemjara sem fulltrúar félagsins virtu að vettugi.
Deilan snýst um kaup og kjör starfsmanna Primera Air, en flugfélagið hefur ekki viljað gera kjarasamning við Flugfreyjufélagið og greiðir því ekki samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Primera vísar aftur á móti til þess að það starfi ekki á íslenskum vinnumarkaði og að það standi ekki í kjaradeilu.