Farið var yfir loftræstikerfi og skipt um síur í vél Icelandair eftir að fjórir flugliðar leituðu læknisaðstoðar eftir að þeir komu til landsins frá Edmonton í gærmorgun. Vélin fór aftur í loftið síðdegis í gær.
„Við erum með ákveðna skoðun sem fer í gang ef svona kemur upp,“ segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair, við mbl.is. Stíflaðar eða skítugar síur urðu þess valdandi að loftflæðið var skert.
Hann sagði í gær Icelandair hafi í gegnum tíðina öðru hverju fengið mál tengd vanlíðan í flugvélum hjá áhafnarmeðlimum. Slík tilvik komi upp hjá flestum flugfélögum þar sem loftgæði eru skert um borð í flugvélum almennt.
Starfsfólk í áhöfn fann fyrir óþægindum, höfuðverk og þreytueinkennum eftir flugið en ekkert bendir til þess að farþegar hafi fundið fyrir slíkum óþægindum. „Það er mjög sjaldgæft að farþegar kenni sér meins þegar svona gerist,“ segir Jens og bætir við að aðstæður þeirra séu öðruvísi vegna þess að farþegar eru að mestu leyti kyrrir í vélinni.
Hann segir að Icelandair vilji tryggja góða vinnuaðstöðu um borð í sínum vélum og fari oft yfir loftræstikerfi sinna véla. „Við skoðum þetta oft, oftar en okkur er uppálagt af framleiðundum og yfirvöldum.“
Aðspurður segir Jens að ekki hafi verið haft samband við áhöfnina síðan í gær en þau séu að hvíla sig. „Það verður farið í gegnum þetta með þeim eftir helgi.“