Hringrás taupokanna er virk á Höfn í Hornafirði

Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir með pokasaumakonum á Pokastöðinni á Höfn.
Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir með pokasaumakonum á Pokastöðinni á Höfn. Ljósmynd/Pokastöðin á Höfn

Pokastöðvar hafa rutt sér til rúms hér á landi og þær er nú að finna víðsvegar um landið í ýmsum myndum. Þær virka þannig að taupokum er komið fyrir í verslunum þannig að fólk geti notað þá en sleppt því að taka plastpoka. Slíkt hefur gefið góða raun, til dæmis á Blönduósi og víðar. Fólk kemur aftur með pokana í búðina og þannig fara þeir hring eftir hring umhverfinu til heilla.

Á Höfn í Hornafirði hittist vaskur hópur mánaðarlega til að sauma margnota poka sem svo er komið fyrir í matvöruversluninni á staðnum. Guðrún Ásdís Sturlaugsdóttir er upphafskona þessarar vinnu sem hefur verið í gangi frá því sumarið 2016.

„Mér datt þetta bara í hug í búðinni hérna á staðnum. Ég fór að spyrja fólkið sem býr hér af hverju það notaði ekki taupoka og spyrjast fyrir í kringum mig. Ég sjálf vildi gjarnan nota taupoka en gleymdi þeim alltaf heima, náði ekki að koma þessu inn í rútínu,“ segir Guðrún sem fékk þá þessa hugmynd um að koma upp nokkurs konar hringrás taupoka í samfélaginu. Pokarnir væru í búðinni þannig að ekki þyrfti að muna eins oft eftir að taka þá með.

Pokana þarf að sjálfsögðu að þvo áður en þeir eru …
Pokana þarf að sjálfsögðu að þvo áður en þeir eru teknir í notkun. Ljósmynd/Pokastöðin á Höfn

„Ég fékk þetta í gegn í vinnunni sem verkefni að prófa að gera þetta hér á Höfn,“ segir Guðrún en hún starfar hjá Nýheimum sem er þekkingarsetur á Höfn og vinnur að verkefnum fyrir SASS, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, sem fjármagna verkefnið. Hugmyndin að baki Nýheimum er að stofnanir og fyrirtæki hafi með sér þverfaglegt og hagnýtt samstarf sem miðar að því að stuðla að jákvæðri byggðaþróun á Suðausturlandi og bæta lífsgæði á svæðinu, eins og það er orðað á vef setursins. Pokastöðvaverkefnið hefur orðið að áhersluverkefni í Sóknaráætlun Suðurlands sem SASS stendur að. 

„Ég fór bara af stað á fullu, árið 2016, að koma þessu í gegn. Svo fyrir algjöra tilviljun þá fékk ég sent myndband frá Ástralíu og þá var bara nákvæmlega sams konar verkefni í gangi þar. Við tókum bara skype-fund með þeim í Ástralíu og ákváðum að vera með þeim í stærra verkefni sem kallast Boomerang Bags.“

Pokastöðin á Höfn varð að veruleika og þar eru nú saumaðir pokar og merktir bæði stöðinni og ástralska verkefninu, sem nú er raunar orðið alþjóðlegt.

„Þau voru bara tilbúin með allt þetta markaðsefni og okkur fannst eina vitið að vera með í þessu alþjóðlega verkefni sem nú hefur dreifst til fleiri landa. En við notum samt áfram nafnið Pokastöðin á Höfn.“

Frá upphafi verkefnisins á Höfn. Standandi eru Ólafía, Guðrún Ásdís, …
Frá upphafi verkefnisins á Höfn. Standandi eru Ólafía, Guðrún Ásdís, Berglind og Helga. Sitjandi eru Ásta, Matthildur og Ragnheiður. Ljósmynd/Pokastöðin á Höfn

Verkefnið er opið öllum, þ.e. allir geta sótt sér upplýsingar hjá Boomerang Bags og nýtt þeirra markaðsefni til að merkja poka. Guðrún bendir á að á vefnum pokastodin.wordpress.com megi nálgast ýmsar upplýsingar fyrir þá sem vilja stofna pokastöð.

Guðrún segir að margnota taupokunum hafi verið afskaplega vel tekið á Höfn og nú séu heimamenn orðnir vanir því að nota þá en sleppa plastinu. Mesta áskorunin felist í því að hafa alltaf nóg af pokum, því þeir skili sér ekki alltaf til baka í verslunina. Það sé þó algjört aukaatriði.

„Aðalmálið er að fólk sé að nota pokana einhvers staðar, jafnvel þótt þeir skili sér ekki endilega í körfuna aftur,“ segir Guðrún og bætir við að það séu fleiri kostir við að stofna Pokastöð en bara minni plastnotkun.

Yngri íbúar á Höfn víla ekki fyrir sér að bera …
Yngri íbúar á Höfn víla ekki fyrir sér að bera taupoka með vörum. Ljósmynd/Pokastöðin á Höfn

„Við hættum ekki fyrr en búðirnar losa sig við pokana. Það er aðalmarkmiðið. En annað markmið er líka að að vekja fólk til umhugsunar um umhverfismál almennt. Þetta er eins og saumaklúbbur sem hittist en þarna er gjarnan rætt um umhverfið og skipst á hugmyndum um hvernig má bæta umhverfið. Að minnka plast snýst um að breyta hugarfari og það er gott að byrja á því að ræða málin.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert