Björgunarsveitarmenn, sem komu erlendum ferðamanni sem féll í klettum í vestanverðu Skjálfandafljóti, neðan við Goðafoss, til bjargar, voru um 60 talsins. Svæðið er grýtt og var því erfitt að ganga eftir því með sjúkrabörur, að sögn Hjálmars Boga Hafliðasonar, sem var í vettvangsstjórn á staðnum. Fara þurfti niður stiga og ganga um 50 metra í grýttum farveginum til þess að komast að manninum.
Maðurinn var fluttur með sjúkrabifreið til Akureyrar þar sem hlúð var að honum en því næst flaug þyrla Landhelgisgæslunnar með manninn áleiðis á Landspítalann í Fossvogi kl. 17:14. Maðurinn er á sextugsaldri og fram kom í kvöldfréttum Rúv að hann væri ísraelskur. Hann var með skerta meðvitund og talsverða áverka á höfði auk þess að vera lemstraður víða um líkamann.
Björgunarsveitin Garðar á Húsavík fékk fyrst boð um að maðurinn hafi fallið í fljótið svo mikill viðbúnaður var hjá sveitinni. Maðurinn féll hins vegar í Hansens-gat sem er talsvert fyrir neðan Goðafoss.
„Við fyrstu boð settum við báta og galla og allt af stað en síðan þegar við mætum þá sjáum við að maðurinn er ekki í fljótinu. Eftir nánari upplýsingar þá sáum við að þetta var ekki eins og boðunin var í upphafi,“ sagði Hjálmar.
Aðstæður voru ekki slæmar en þó var bratt niður. Þarna var stigi að fljótinu þar sem ferðamenn fara gjarnan niður en þetta er mjög grýtt svæði sem þarf að ganga eftir. Það þurfti mikinn mannskap til að bera börurnar, við vorum vel mönnuð, settum tryggingar og línur til þess að komast þarna niður og allt gekk vel,“ segir Hjálmar.