Var með skerta meðvitund eftir fallið

Maðurinn féll í klettum í vestanverðu Skjálfandafljóti, talsvert neðan við …
Maðurinn féll í klettum í vestanverðu Skjálfandafljóti, talsvert neðan við Goðafoss. Rax / Ragnar Axelsson

Erlendur ferðamaður á sextugsaldri var með talsverða áverka á höfði, lemstraður víða um líkamann og skerta meðvitund eftir að hafa fallið í klettum í vestanverðu Skjálfandafljóti, talsvert neðan við Goðafoss.

Samkvæmt því sem kemur fram á facebooksíðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra gekk ágætlega að komast til hans en hann hafði staðnæmst í klettunum og féll því aldrei í Skjálfandafljótið.

Eins og áður kom fram lagði þyrla Landhelgisgæslunnar af stað með manninn áleiðis á Landspítalann í Fossvogi klukkan 17.14 en hún lenti nú fyrir stundu. Áður hafði maðurinn verið fluttur með sjúkrabifreið til Akureyrar þar sem hlúð var að honum.

Maðurinn var á ferðalagi hér á landi með fjölskyldu sinni og nutu þau áfallahjálpar hjá áfallateymi Rauða krossins á Akureyri þegar þangað var komið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert