Ekkert mun fást upp í launakröfur hátt í sextíu starfsmanna í þrotabú United Silicon en eignir búsins hafa að mestu farið í að greiða kröfur Arion banka í búið. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, sem segir tjón starfsmanna geta hlaupið á tugum milljóna króna.
United Silicon var úrskurðað gjaldþrota í byrjun þess árs, en tæplega 60 unnu hjá fyrirtækinu er mest var.
Námu kröfur í þrotabúið 23 milljörðum króna og var Arion banki stærsti kröfuhafinn, með 9,5 milljarða kröfu í búið.
55 starfsmenn eru sagðir hafa lagt fram launakröfur upp á samtals 110 milljónir króna og hefur Stöð 2 eftir skiptastjóranum, Geiri Gestssyni, að „afar ólíklegt“ sé að eitthvað fáist upp í launakröfurnar, þar sem eignir búsins hafi að mestu farið í að greiða veðkröfur Arion banka.