Lykilatriði að óskað sé nafnleyndar

Til þess að hægt sé að byggja á 25. grein fjölmiðlalaga um vernd heimildarmanna verður að liggja fyrir að heimildarmaður hafi óskað nafnleyndar í samræmi við efni ákvæðisins. Hins vegar liggur ekki fyrir í lögbannsmáli Glitnis HoldCo ehf. gegn Útgáfufélaginu Stundinni ehf. og Reykjavík Media ehf. að heimildarmaður fjölmiðlanna tveggja hafi óskað eftir nafnleynd.

Þetta kom fram í málflutningi Ólafs Eiríkssonar, lögmanns Glitnis HoldCo ehf., fyrir Landsrétti í morgun þar sem Glitnir HoldCo ehf. fer fram á að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu verði ógiltur og málið sent aftur í hérað. Enn fremur að vitnum, forsvarsmönnum og blaðamönnum fjölmiðlanna tveggja verði gert að svara spurningum fyrir dómi.

Héraðsdómur féllst á kröfur Stundarinnar og Reykjavík Media um að aflétt yrði lögbanni sýslumanns á fréttaflutning byggðan á miklu magni gagna um viðskiptavini Glitnis banka og að fjölmiðlunum bæri ekki að afhenda gögnin þar sem ekki lægi fyrir um hvaða gögn væri að ræða. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu. Málið fór í kjölfarið fyrir Hæstarétt sem vísaði því frá dómi.

Ólafur benti á að forsvarsmenn og blaðamenn Stundarinnar og Reykjavík Media hefðu í tvígang neitað að svara þeirri spurningu fyrir dómi hvort heimildarmaður þeirra, sem afhent hefði þeim mikið magn gagna um fjölda viðskiptavina Glitnis banka, hefði óskað nafnleyndar með vísan til 25. greinar fjölmiðlalaga sem gerði kröfu um að ósk um nafnleynd lægi fyrir. Þetta væri algert lykilatriði.

Visaði Ólafur til þeirrar almennu reglu að vitnum bæri að svara spurningum fyrir dómi. Undantekningar væru meðal annars ef heimildarmenn fjölmiðla óskuðu nafnleyndar sem ekki lægi fyrir í þessu tilfelli hvort gert hafi verið. Fyrir vikið hefði héraðsdómur ekki getað byggt á ákvæðinu um vernd heimildarmanna enda skilyrði fyrir beitingu þess óuppfyllt.

Dómstólar ekki lagt eigið mat á gögnin

Ólafur sagði gögn málsins benda til þess að heimildarmaður fjömiðlanna hefði ekki óskað nefnleyndar. Vísaði hann enn fremur til fordæma þess efnis að þegar annar málsaðili neitaði að leggja fram gögn yrði að taka trúanlega frásögn hins aðilans um innihald þeirra. Það væri á ábyrgð þess sem neitaði að leggja fram upplýsingar að sýna fram á að frásögn hins væri röng.

mbl.is/Eggert

Hins vegar virtist af frásögnum fjölmiðla af upphafi málsins sem heimildarmaður Stundarinnar og Reykjavík Media hefði verið Jon Henley, blaðamaður breska dagblaðsins Guardian. Komið hafi fram að hann hafi afhent fjölmiðlunum tveimur gögnin. Málið snerist hins vegar ekki um afhjúpun heimildarmanna heldur að staðfesta að um gögn innan úr Glitni væri að ræða.

Fyrir lægi samkvæmt fréttum Stundarinnar og Reykjavík Media að um væri að ræða gögn innan úr Glitni en þeir hafi neitað að leggja þau fram. Ólafur sagði að best hefði verið að fjölmiðlarnir tveir hefðu lagt gögnin fram fyrir dómara í trúnaði líkt og heimilt væri samkvæmt lögum. Það hefði Glitnir HoldCo ehf. bent á en því hins vegar verið hafnað af fjölmiðlunum.

mbl.is/Hjörtur

Ólafur sagði að fyrir vikið hefði ekkert mat verið framkvæmt af héraðsdómi á því hvort birting gagnanna gengi framar til að mynda ákvæðum stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífsins. Dómstólar yrðu sjálfir að framkvæma slíkt mat en ekki framselja það vald til annarra. Þetta mat hefði ekki farið fram vegna þess að fjölmiðlarnir hefðu neitað að leggja gögnin fram.

Málið snerist um grundvallarréttindi stjórnarskrárinnar. Sagði Ólafur að ef ekki yrði fallist á kröfur Glitnis HoldCo ehf. myndi það meðal annars senda þau skilaboð að þeir sem hefðu í fórum sínum upplýsingar sem ættu lögum samkvæmt að njóta verndar, gætu hunsað þau lög með því að koma þeim í hendur blaðamanna. Það væru varhugaverð skilaboð að hans mati inn í framtíðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka