Ólafur Ólafsson, athafnamaður og fyrrverandi hluthafi í Kaupþingi, krefst þess að Vilhjálmur Vilhjálmsson dómari víki sæti í máli gegn honum fyrir Landsrétti. Þetta kemur fram á vef RÚV, en málflutningur hófst í morgun.
Í málinu sem um ræðir er tekist á um kröfu Ólafs um endurupptöku á þætti hans í Al Thani-málinu. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í lok síðasta árs kröfu hans um að fella úr gildi úrskurð endurupptökunefndar sem komist hafði að þeirri niðurstöðu að ekki væri efni til að endurupptaka Al Thani-málið þar sem Ólafur var sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun.
Rökstuðningur Ólafs fyrir kröfunni er þríþættur. Í fyrsta lagi tilgreinir hann að Vilhjálmur sé vinur Markúsar Sigurbjörnssonar, fyrrverandi forseta Hæstaréttar, sem dæmdi í Al Thani-málinu á sínum tíma. Í öðru lagi að Finnur, sonur Vilhjálms, hafi gert Hauck & Aufhauser-skýrsluna um einkavæðingu Búnaðarbankans þar sem fjallað er um kaup Ólafs á bankanum. Í þriðja lagi vegna þess að Ingi Freyr, sonur Vilhjálms, hafi skrifað svo margar fréttir um hann í gegnum tíðina.
Ólafur höfðaði mál gegn embætti ríkissaksóknara og íslenska ríkinu í júní 2016. Hann krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður endurupptökunefndar frá 26. janúar 2016 þar sem hafnað var beiðni hans um endurupptöku Al Thani-málsins, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 12. febrúar 2015. Var Ólafur þá fundinn sekur um markaðsmisnotkun og dæmdur til fjögurra og hálfs árs fangelsisvistar.