Orri Páll Dýrason hefur ákveðið að hætta sem trommuleikari hljómsveitarinnar Sigur Rósar. Hann segir að ákvörðunin hafi verið sér þungbær.
Bandaríska listakonan Meagan Boyd sakaði Orra Pál um að hafa nauðgað henni árið 2013 og birti hún ásakanir þess efnis á Instagram-síðu sinni fyrir nokkrum dögum.
„Vegna umfangs þessa máls hef ég ákveðið að hætta í Sigur Rós. Sú ákvörðun er mér þungbær, en ég get ekki látið þessar alvarlegu ásakanir hafa áhrif á hljómsveitina og það mikilvæga og fallega starf sem þar hefur verið unnið síðustu ár. Starf sem er mér svo kært,“ skrifar Orri Páll á Facebook-síðu sinni.
„Fram skal tekið að ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að losa mig úr þessari martröð en af virðingu við raunverulega þolendur ofbeldis mun ég þó ekki taka þann slag opinberlega.“
Orri Páll þakkar vinum og vandamönnum fyrir veittan stuðning vegna ásakananna.
„Málið hefur óneitanlega tekið á mig síðustu daga. Réttlætanlegt, segja ef til vill einhverjir og hyggst ég ekki deila við það fólk. Hinsvegar bið ég einlæglega um að sama fólk beini reiði sinni í réttan farveg og að fjölskylda mín og þá sérstaklega konan mín verði ekki dregin frekar inn í þetta mál eða umfjöllun þess.“
Hann biður fólk um að halda ró sinni og skipast ekki í tvær stríðandi fylkingar og segir að ekki sé um réttarhöld að ræða heldur orð Meagan Boyd gegn hans á netinu.
Orri Páll gekk til liðs við Sigur Rós árið 1999, skömmu eftir upptökur á plötunni Ágætis byrjun, og hefur því spilað með hljómsveitinni í tæp tuttugu ár.
Hann hefur spilað inn á fimm hljóðversplötur með sveitinni, eða ( ), Takk, Með suð í eyrum við spilum endalaust, Valtari og Kveikur.