Aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn Sveini Gesti Tryggvasyni hefst fyrir Landsrétti í dag. Sveinn var dæmdur í sex ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í tengslum við dauða Arnars Jónssonar Aspar sem lést eftir líkamsárás sem hann varð fyrir í Mosfellsdal í júní í fyrra.
Dómur héraðsdóms var kærður til Landsréttar.
Sveini var gert í héraði að greiða samtals 32 milljónir í miskabætur til unnustu Arnars, tveggja dætra hans og foreldra. Einnig var Sveini gert að greiða um 12,9 milljónir í sakarkostnað, málsvarnarlaun, réttargæslu og útfararkostnað.
Arnar er sagður hafa kafnað vegna mikillar minnkunar á öndunarhæfni sem olli banvænni stöðukæfingu sem má rekja til einkenna æsingsóráðs vegna þvingaðrar frambeygðrar stöðu sem Sveinn hélt Arnari í.
Sveinn er ekki ákærður fyrir manndráp, en í ákærunni leiðir áverkalýsingin til lýsingar á banameini Arnars sem er sögð köfnun vegnar þeirrar stöðu sem Arnar var þvingaður í af Sveini.
Er Sveinn ákærður með vísan til 2. málsgreinar 218. greinar almennra hegningarlaga, en hún tekur á stórfelldu líkams- eða heilsutjóni sem skapast af árás og ef brotaþoli hlýtur bana af.
„Nú hlýst stórfellt líkams- eða heilsutjón af árás eða brot er sérstaklega hættulegt vegna þeirrar aðferðar, þ.á m. tækja, sem notuð eru, svo og þegar sá, er sætir líkamsárás, hlýtur bana af atlögu, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum.]“