Efast um framburð vitna

Sveinn Gestur Tryggvason í Landsrétti í dag.
Sveinn Gestur Tryggvason í Landsrétti í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Björgvin Jónsson, verjandi í máli ákæruvaldsins gegn Sveini Gesti Tryggvasyni, krafðist þess við aðalmeðferð í Landsrétti í dag að Sveinn Gestur verði sýknaður í málinu. Til vara krafðist hann þess að að refsing hans frá áfrýjuðum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur verði milduð.

Sveinn Gest­ur var dæmd­ur í sex ára fang­elsi í Héraðsdómi Reykja­vík­ur fyr­ir stór­fellda lík­ams­árás í tengsl­um við and­lát Arn­ars Jóns­son­ar Asp­ar. Þeim dómi var áfrýjað og málið tekið fyr­ir í Lands­rétti.

Einnig krafðist hann þess að bótakröfum verði vísað frá dómi en til vara að þær verði lækkaðar frá héraði. Þar var hon­um gert að greiða sam­tals 32 millj­ón­ir í miska­bæt­ur til unn­ustu Arn­ars, tveggja dætra hans og for­eldra. Einnig var Sveini gert að greiða um 12,9 millj­ón­ir í sak­ar­kostnað, mál­svarn­ar­laun, rétt­ar­gæslu og út­far­ar­kostnað.

Lögmaðurinn segir að Sveinn Gestur kannist ekki við að hafa tekið Arnar hálstaki eða notað líkamsþunga sinn til að halda honum niðri. Hann kannist heldur ekki við að hafa slegið Arnar með krepptum hnefa í andlit.

Hann segir hins vegar að áverkar Arnars geti passað við lýsingar Sveins á því að Jón Trausti Lúthersson, sem var einn þeirra sem kom ásamt Sveini Gesti á heimili Arnars 7. júní í fyrra, hafi slegið Arnar með neyðarhamri.

Í máli verjanda kom fram að Sveinn Gestur vildi taka við Arnari af Jóni Trausti vegna þess að Sveinn treysti Jóni ekki fyrir því að valda Arnari ekki skaða.

Hann benti á að Sveinn Gestur heyrist segja í símtali til Neyðarlínunnar að hann væri að „taka við „chok­inu““. Það bendi til þess að Jón Trausti hafi verið með Arnar í hálstaki.

Lögmanni ákæruvaldsins var tíðrætt um ótrúverðugan og breytilegan framburð Sveins Gests í málinu. Verjandi sagði að framburður Sveins Gests hefði ekki breyst en hann hafi ekki viljað segja frá viðskiptum Jóns Trausta og Arnars. „Ég tel að hann hafi gefið trúverðugar skýringar á þessu,“ sagði Björgvin.

Sveinn Gestur við aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra.
Sveinn Gestur við aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra. mbl.is

Fram kom í máli ákæruvaldsins að málflutningur Sveins Gests stangist á við framburð vitna í málinu. Verjandi sagði að eitt vitni, nágranni Arnars, hafi haft merkjanleg áhrif á önnur vitni en að það standi ekki steinn yfir steini í framburði vitnisins.

Björgvin benti á að samkvæmt skráðri tímalínu hafi lögregla komið á svæðið þegar vitnið var í símanum að hringja í Neyðarlínuna. Vitnið hafi hins vegar haldið því fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að langur tími hafi liðið frá símtali og þar til lögregla kom. Á þeim langa tíma hafi Sveinn Gestur verið með Arnar í hálstaki. Verjandinn sagði augljóst að þetta stæðist ekki.

Verjandinn sagði að framburður vitna bæri þess merki að þau hefðu borið saman framburð sinn en í slíkum tilfellum trúi vitni því sem þau segja. Hann sagði þetta tengjast tilhneigingu vitna til að segja satt frá. Þegar þau eru ekki alveg örugg á sínum framburði taki þau framburð frá einhverjum sem telji sig hafa séð hlutina betur.

Hann telur að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna sekt ákærða, Sveins Gests, og því beri að sýkna hann af kröfunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka