„Óafturkræf eyðilegging“

Lágmynd Sigurjóns Ólafssonar á Síðumúla 20 er nú horfin
Lágmynd Sigurjóns Ólafssonar á Síðumúla 20 er nú horfin mbl.is/Guðmundur Ingólfsson

Lágmynd sem myndlistarmaðurinn Sigurjón Ólafsson vann inn í steinsteyptan norðurgafl Síðumúla 20 árið 1977 þegar húsið var í byggingu er horfið á bak við klæðningu auk þess sem gluggi hefur verið settur í gegnum verkið.

„Þetta er óafturkræf eyðilegging,“ segir Birgitta Spur, ekkja Sigurjóns. Rétthöfum höfundarréttar listamannsins var ekki gert viðvart að til stæði að eyðileggja verkið, svo þeir gætu skráð það, tekið af því mót eða gert aðrar ráðstafanir.

Verkið hluti af evrópskri listasögu þess tíma

Lögmaður Eikar fasteignafélags, sem á húsið, segir í bréfi til Myndstefs að tilgangur viðhalds hússins hafi ekki bara verið „að eyðileggja listaverkið eða hylja það þó að sú hafi orðið raunin í reynd“. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir  Harpa Fönn Sigurjónsdóttir, lögmaður Myndstefs, visst vandamál að lagaramminn um höfundarrétt sé þröngur hérlendis og að lögin þyrftu að vera skýrari.

Lágmyndin sem nú er horfin var rúmlega níu metra löng og nær þriggja metra há. Að sögn ekkju listamannsins vísaði verkið í evrópskar listhræringar á mótunartíma Sigurjóns. „Þetta er verk sem er hluti af evrópskri listasögu þess tíma og það er búið að eyðileggja það - grólega. Mér finnst þeir menn vera grátlega illa upplýstir sem hika ekki við að eyðileggja verk sem þetta,“ segir Birgitta. Að hennar mati sýnir málið að það sé brotalöm í höfundarréttarlöggjöfinni, að eigendum opinberra verka sé ekki skylt að tilkynna um breytingar eða eyðileggingu á þeim. 

Þessi mynd af norðurgafli Síðumúla 20 var tekin í síðustu …
Þessi mynd af norðurgafli Síðumúla 20 var tekin í síðustu viku. Eins og sjá má er verk Sigurjóns Ólafssonar frá árinu1977 horfið bak við klæðningu auk þess sem gluggi hefur verið settur í gegnum mitt verkið. Morgunblaðið/Einar Falur

Listaverkið ekki á teikningum

Lögmaður Eikar fasteignafélags benti á það í bréfi til Myndstefs að leyfi frá byggingafulltrúa til breytinga á Síðumúla 20 hafi verið veitt í október 2016 og janúar 2017 án athugasemda. Verk Sigurjóns á norðurgafli eignarinnar hafi ekki verið skráð hjá byggingaryfirvöldum né komi fram á uppdráttum. Þar segir jafnframt að stærsti hluti verksins hafi árum saman verið hulinn með skilti frá Hljóðfærahúsinu, áður en Eik eignaðist fasteignina. Og hafi Eik því ekki verið kunnugt um tilvist þess hluta fyrr en leigutaki fékk heimild til að setja glugga á gafl hússins. 

Þegar blaðamaður ræðir við starfsmann byggingafulltrúa sem fer í gegnum teikningar að Síðumúla 20 sem þar eru, staðfestir hann að hvergi megi sjá að getið sé um að listaverk eftir Sigurjón Ólafsson sé á gafli hússins. Þegar spurt er hvort afgreiðsla á ósk um að breyta gaflinum hefði verið samþykkt athugasemdalaust hefði verið vitað af listaverkinu segir starfsmaðurinn það ólíklegt.

Tilgangur framkvæmda ekki að eyðileggja

Harpa Fönn Sigurjónsdóttir er lögmaður Myndstefs. Hún segir að í þessu máli sé bent á sæmdarrétt höfunda sem lýtur að því að ekki megi breyta verkum listamanna eða taka þau úr samhengi án þeirra leyfis eða handhafa höfundarréttar þeirra.

Þegar Harpa Fönn sendi fyrirspurn til Eikar fasteignafélags vegna þess álitamáls hvort sæmdarréttur hafi verið brotinn með því að fjarlægja verk Sigurjóns, þá vísar lögfræðingur fasteignarfélagsins til greinar í lögum um að breytingar á byggingarlist séu heimilar í þeim tilvikum sem teljast nauðsynlegar vegna afnotar á fasteign eða af tæknilegum ástæðum.

Í bréfi lögfræðings Eikar segir: „Tilgangur viðhalds fasteignarinnar var ekki sá að eyðileggja listaverkið eða hylja það þó að sú hafi orðið raunin í reynd. Þess síður að skerða sæmdarrétt höfundar þess, sem lést árið 1982. Tilgangurinn var sá að viðhalda fasteigninni þannig að ekki stafaði hætta af henni og að halda mætti áfram að hagnýta fasteignina, til hagsbóta fyrir eigandann í samræmi við eignarétt hans. Til þess hefur hann heimild.“

Í lok bréfsins skrifar lögfræðingur fasteignafélagsins: „Umbjóðandi minn harmar ef rétthöfum listamannsins Sigurjóns Ólafssonar þykir að sæmdarrétti hans vegið með nauðsynlegu viðhaldi á fasteigninni að Síðumúla 20. Hann ítrekar hins vegar að vilji hans eða ásetningur stóð ekki til vanvirðingar eða brota á sæmdarrétti. Jafnframt telur hann slíkt brot ekki hafa verið framin ...“

Lagaramminn um höfundarrétt þröngur hérlendis

Myndstef hefur svarað þessum röksemdum lögfræðings Eikar, og bendir á að lagaákvæði það sem hann vísar í eigi einfaldlega ekki við í þessu tilviki. Ákvæðið eigi „einungis við þegar breyta á byggingarlist, eða arkitektur (byggingum) sem eru höfundavarðar,“ eins og segi orðrétt í ákvæðinu.

Að sögn Hörpu Fannar Sigurjónsdóttur, lögfræðings Myndstefs, geta breytingar þá verið heimilar á byggingarlistinni í þeim tilvikum sem telst nauðsynlegt vegna afnota þess eða af tæknilegum ástæðum. „Verk Sigurjóns Ólafssonar flokkast ekki sem byggingarlist. Verkið er lágmynd og telst myndlistarverk og var grafið inn í húsvegg hússins.“

Harpa Fönn viðurkennir að eignarréttur eiganda listaverks geti talist sterkur í atvikum sem þessum. Hún segir visst vandamál að lagaramminn um höfundarrétt sé þröngur hér á landi. Þegar um sé að ræða listaverk utanhúss, sem verði á vissan hátt hluti umhverfissins og einkennistákn staðar eða hlutar, sé réttur listamanna meiri en ef verk er í einkarými eins og inni á heimili, þar sem eigandinn geti gert það við það sem honum hugnast.

„Sæmdarrétturinn getur hér vikið fyrir eignaréttinum, sem er einnig stjórnarskrárvarinn, svo það getur verið matsatriði hvenær eiganda er heimilt að fjarlægja myndverk eða hreinlega eyða því eða hvenær slíkt athæfi telst brot á sæmdarrétti myndhöfundarins. Það stangast því á hagsmunir höfundarins og hagsmunir eiganda,“ segir Harpa Fönn.

Ítarlegri umfjöllun um málið má lesa í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert