Þurfti ekki mikið til að illa færi

Sebastian Kunz réttarmeinafræðingur.
Sebastian Kunz réttarmeinafræðingur. mbl.is/Hanna

Sebastian Kunz rétt­ar­meina­fræðing­ur sagði að það væri ólíklegt að æsingsóráð eitt og sér gæti valdið dauða. Hann sagði við aðalmeðferð í máli gegn Sveini Gesti Tryggvasyni í Landsrétti í dag að æsingsóráðið væri hluti af heildarmyndinni. Arnar Jónsson Aspar lést eftir átök við heimili hans í júní í fyrra. Kunz sagði málið flókið og erfitt að benda á eitt atriði sem hafi valdið dauða Arnars.

Áður hafði komið fram í krufningarskýrslu réttarmeinafræðings að æsingsóráðsheilkenni sé hluti ástæðu þess að Arnar lést. Einnig segir að rekja megi and­látið til nokk­urra sam­verk­andi þátta, en þvinguð fram­beygð staða og hálstak sem hinn grunaði hafi haldið brotaþola í, er tal­in hafa leitt til mik­ill­ar minnk­un­ar á önd­un­ar­getu sem leiddi til köfn­un­ar.

Sveinn var dæmd­ur í sex ára fang­elsi í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í tengsl­um við dauða Arn­ars Jóns­son­ar Asp­ar sem lést eft­ir lík­ams­árás sem hann varð fyr­ir í Mos­fells­dal í júní í fyrra. Dómnum var áfrýjað til Landsréttar.

Viðkomandi berst um á hæl og hnakka

Kunz sagði að hinn látni hafi verið mjög ölvaður þegar hann lést og hafi verið með lyf í blóðinu sem geti valdið æsingsóráði. Hann sagði að greiningin á æsingsóráði sé fyrst og fremst byggð á lögregluskýrslu og blóðgreiningu. Sýni hafi verið tekin á sjúkrahúsi eftir að viðkomandi lést.

„Þetta er talið í dag vera eins kon­ar sjúk­dóms­ástand sem kem­ur fram und­ir þeim kring­um­stæðum að viðkom­andi aðili er að veita viðnám eða mót­spyrnu, streit­ast á móti, er í mjög æstu hug­ar­ástandi og berst um á hæl og hnakka,“ var haft eft­ir Sig­urði Erni Hektors­syni, yf­ir­lækni á fíkni­deild Land­spít­al­ans, í fyrra um æsingsóráð.

„Þegar reynt er að leggja höml­ur á viðkom­andi með bönd­um eða hand­járn­um þá magn­ast ástandið og viðkom­andi er gjarn­an með hita og óráð og í rug­lástandi. Síðan get­ur þetta magn­ast upp og þá veld­ur þetta á end­an­um önd­un­ar­stoppi, hjarta­stoppi og get­ur dregið fólk til dauða, en það ger­ir það ekki alltaf,“ sagði Sig­urður enn ­frem­ur.

Fórnarlambið var örþreytt

Kunz fór yfir málið en ljóst er að átök áttu sér stað áður en Arnar lést. Hann sagði að krufning hefði leitt það í ljóst að áverkar voru á hálsi hins látna. Að hans mati hafi æsingsóráð, þrýstingur og kyrkingartak leitt til andláts.

Réttarmeinafræðingurinn lýsti því að blettablæðingar í andliti og augum séu lýsandi fyrir það þegar maður kyrki einhvern með þeim afleiðingum að ekki verði aftur snúið. Hann sagði að engar blettablæðingar hefðu fundist í krufningu.

Kunz sagði að við upphaf átakanna hafi fórnarlambið verið örþreytt. Það gefi til kynna að ekki hafi þurft mikið til að illa færi; að fórnarlambið kafnaði eða yrði fyrir banvænum öndunarerfiðleikum.

Réttarmeinafræðingurinn sagði að það að vera með mann frambeygðan eða sitja á baki hans, án þess að vera með hann í kverkataki, eitt og sér sé ekki líklegt til að valda dauða. Sveinn segist hafa tekið við Arnari af Jóni Trausta, sest ofan á rasskinnar hans og haldið höndum hans fyrir aftan bak. Það hafi hann gert án þess að leggja þunga ofan á Arnar.

Kunz sagði að frambeygða staðan sé þekkt aðferð lögreglu. Fjöldi rannsókna hafi verið framkvæmdur á hvaða áhrif þessi aðferð við að halda fólki getur haft á öndun og í hvaða mæli hún valdi öndunarerfiðleikum.

Vísindaleg niðurstaða sé að slík handtök séu ekki nóg til að valda afgerandi öndunarerfiðleikum. Kunz vildi þó taka fram að þær rannsóknir hafi beinst að tækni lögreglu við slík handtök en ekki verið á grundvelli aðgerða ákærða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert