Haraldur Sigurðsson, fyrrverandi bankagjaldkeri og félagsmálafrömuður, lést á sjúkrahúsinu á Akureyri föstudaginn 28. september s.l., 93 ára að aldri.
Haraldur var fæddur 21. janúar 1925 að Stuðlafossi í Jökulsárhlíð. Foreldrar hans voru hjónin Hróðný Stefánsdóttir húsfreyja og Sigurður Haraldsson bóndi og síðar forstjóri Nýja bíós á Akureyri. Haraldur lauk prófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1945. Árin 1947-48 starfaði hann á Skattstofunni á Akureyri og í afgreiðslu Loftleiða árið 1949. Hann var sýsluskrifari og gjaldkeri bæjarfógetans á Akureyri árin 1950-60. Haraldur var gjaldkeri í Útvegsbankanum á Akureyri 1960-72 og deildarstjóri víxla og skuldabréfa til starfsloka þar 1994.
Haraldur gegndi fjölda félags- og trúnaðarstarfa um ævina. Má þar helst nefna að hann sat í stjórn frjálsíþróttadeildar Knattspyrnufélags Akureyrar(KA)um árabil og starfaði við flest frjálsíþróttamót á Akureyri frá 1941 til 1983. Í stjórn Skíðaráðs Akureyrar 1950-51, í stjórn Skíðasambands Íslands 1953-58, þar af varaformaður 1953-58. Ritari stjórnar KA 1958-62 og formaður 1976-79. Í stjórn Tónlistarfélagsins á Akureyri 1965-70 og einn af stofendum Lionsklúbbsins Hugins 1959, þar sem hann gegndi fjölda trúnaðarstarfa. Ritari stjórnar Leikfélags Akureyrar 1962-64 og framkvæmdastjóri 1967.
Haraldur hlaut fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín. Hann var heiðursfélagi í sex félögum og samböndum, m.a. í KA, LA, ÍBA og Frjálsíþróttasambandi Íslands. Hann var sæmdur hinni íslensku fálkaorðu árið 1998.
Eftir hann liggja nokkrar bækur, m.a. Saga Leikfélags Akureyrar og Skíðakappar fyrr og nú.
Eftirlifandi eiginkona Haraldar er Elíasbet Kemp Guðmundsdóttr, húsfreyja og bankafulltrúi,. Þau giftust 1954. Börn þeirra eru fjögur, Eva Þórey, Ásdís Hrefna, Ragna og Sigurður Stefán, Barnabörnin eru 9 og barnabarnabörn 13.
Útför Haraldar fer fram frá Akureyrarkirkju mánudaginn 8. október kl. 13:30.