Erfitt að bóka þá sem slasast í eftirlit

Talið er að um þriðjungur vinnuslysa sé ekki tilkynntur til …
Talið er að um þriðjungur vinnuslysa sé ekki tilkynntur til Vinnueftirlitsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Erlendum verkamönnum sem leita á bráðamóttöku Landspítalans í tengslum við vinnuslys hefur fjölgað síðustu fjögur til fimm ár, en allur gangur er á því hvort þessir einstaklingar eru tryggðir og með íslenskar kennitölur. Þetta kemur fram í frétt RÚV.

Mbl.is fjallaði um fjölgun vinnuslysa í hópi erlendra verkamanna í nóvember á síðasta ári. Þar kom fram að talið væri að um þriðjungur vinnuslysa væri ekki tilkynntur til Vinnueftirlitsins. Þá hafði mbl.is heim­ild­ir fyr­ir því að fyr­ir­tæki flyttu starfs­menn jafn­vel af landi brott eft­ir vinnu­slys til að koma í veg fyr­ir að þau væru til­kynnt.

Í samtali við RÚV sagði Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans, oft erfitt að bóka erlenda verkamenn sem slasast hafa í endurkomur.

„Við höfum haft sérstaklega áhyggjur af því að það hefur verið erfitt fyrir okkur að bóka fólkið í endurkomur til eftirlits á þeirra áverkum, en við höfum líka lent í því að hafa átt í erfiðleikum með að útskrifa það, þar sem þeir hafa átt í erfiðleikum með að komast aftur í sín húsnæði, hafa ekki haft neina tengiliði á Íslandi.“

Sumir væru ekki með íslenskar kennitölur eða skráðu sig inn á röngum kennitölum. „Ef við höfum reynt að kanna málið og spurt þá út í þetta, þá hafa þeir gert þetta í þeim tilgangi að forðast kostnað. Það er alveg klárt að þetta er hópur sem er í áhættu um að fá ekki jafngóða læknisþjónustu og hann þarf á að halda,“ sagði Jón Magnús.

Dæmi væru um að fólk leitaði sér ekki læknisaðstoðar fyrr en of seint, en um væri að ræða allt frá minni háttar skurðum og tognunum yfir í lífshættuleg slys og jafnvel banaslys.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert