Gaddavírar og gil í Góbí-eyðimörkinni

„Ég hlakkaði alltaf til til að komast í hvíldarstöðvarnar og …
„Ég hlakkaði alltaf til til að komast í hvíldarstöðvarnar og hitta fólk.“ Ljósmynd/Lloyd Belcher/Ultra Gobi 2018

„Síðustu tveir kílómetrarnir voru alveg skelfilegir og komu algerlega á óvart. Ég var búin að vera að hlaupa á sléttum kafla alveg á fullu, búin að gefa í og ætlaði að taka svaka endasprett. Ég vissi að fólk var að bíða eftir því að ég kæmi í mark. Svo bara allt í einu breyttist landslagið.“

Svona lýsir Elísabet Margeirsdóttir síðasta spelinum í 409 kílómetra löngu Góbí-eyðimerkurhlaupinu í Kína sem hún hljóp á rúmlega 97 klukkustundum og kom í mark í fyrradag. Hlaupið er eitt það erfiðasta, ef ekki það erfiðasta, sem Íslendingur hefur reynt við. Elísabet kláraði hlaupið með stæl og varð fyrsta kona í heimi til að klára hlaupið á undir 100 klukkustundum.

„Það var niðamyrkur og ég var eiginlega bara búin að setja GPS-tækið niður og sá marksvæðið. En þegar þú sérð ljós í myrkri veistu ekki hvort það sé 500 metra í burtu eða fimm kílómetra. Ég þurfti ekki bara að hlaupa í markið heldur var fullt af hindrunum á leiðinni. Það var mikið klöngur að komast þessa tvo kílómetra, en leiðin var þannig að hún var bein lína en maður þurfti að hugsa mikið.“

Elísabet var að vonum ánægð þegar hún komst lokst í …
Elísabet var að vonum ánægð þegar hún komst lokst í markið. Ljósmynd/Lloyd Belcher/Ultra Gobi 2018

Hún segir fleiri keppendur hafa haft orð á því að lokaspretturinn hafi verið einstaklega kvikindislegur. „Við vorum búin að gera svo mikið af þessu í hlaupinu sjálfu. Endirinn var alveg til að toppa þetta og kom á óvart.“

„Það komu oft kaflar í hlaupinu þar sem maður mátti alls ekki taka augun af GPS-tækinu. Um leið og þú varst kominn aðeins af leið í myrkri, og hélst áfram, var kannski allt í einu kominn gaddavír eða gil á milli þín og leiðarinnar. Þú heldur kannski að þú sért á réttri leið. Það var alls konar svona, ég veit ekki hvað ég hoppaði yfir margar víragirðingar á leiðinni,“ segir Elísabet létt í bragði.

Líður vel eftir hlaupið en lætur ekki blekkjast

Elísabet var enn stödd í Dunhuang í Kína þegar mbl.is náði tali af henni, en Dunhuang var ein mikilvægasta borgin á silkiveginum. Leið hennar liggur svo til Peking á föstudaginn, þar sem hún ætlar að dvelja yfir helgina og skoða áður en hún heldur heim til Íslands.

„Mér finnst ótrúlegt hvað mér líður vel,“ segir Elísabet aðspurð í hvernig ástandi hún sé eftir þrekraunina. „Líkaminn er fínn, en maður þarf að gefa sér tíma. Þó að mér finnist mér líða vel þá getur þessi vellíðunartilfinning verið blekkjandi.“

Góbí-eyðimerkurhlaupið er það lengsta sem Elísabet hefur hlaupið, en fyrir tveimur árum tók hún þó þátt í Tor Des Geants-fjallahlaupinu í ítölsku ölpunum. Hlaupið var 330 kílómetrar og mikil hækkun.

„Þetta er lengra og hækkunin er mjög lítil miðað við vegalengd,“ útskýrir Elísabet. „Það var svolítið sjokk fyrsta hálfa daginn hvað þetta var rosalega flatt. Ég hef ekki mikið verið að hlaupa svona flöt og löng hlaup í keppni. Ég beið alltaf eftir því að það kæmi smá fjalllendi, en eftir því sem leið á hlaupið aðlagaðist ég.“

Úlfaldabændur kærkomin sjón í einverunni

„Þetta er alger eyðimörk, alger auðn,“ segir Elísabet um umhverfi hlaupsins. Einu sinni hlupu þau þó í gegnum lítinn, nokkuð nútímalegan bæ. „Annars var þetta ekki neitt nema sandur og gil og ofboðslega fallegur fjallgarður sem tilheyrir tíbetsku hásléttunni. Það er rosalega mikið af úlföldum hérna, en þeir eru víst ekki villtir. Ég rakst nokkrum sinnum á úlfaldabændur á litlum mótorhjólum sem vissu ekkert hvað ég var að gera þarna og vinkuðu bara. Það var mjög skemmtilegt.“

„Þetta er alger eyðimörk, alger auðn,“ segir Elísabet um umhverfi …
„Þetta er alger eyðimörk, alger auðn,“ segir Elísabet um umhverfi hlaupsins. Ljósmynd/Lloyd Belcher/Ultra Gobi 2018

„Ég var náttúrulega ein allan tímann. Í byrjun var smá bil á milli fólks, og ég sá í næsta ljós, en mjög fljótt teygðist úr hópnum og það urðu margir klukkutímar á milli hlaupara. Ég hlakkaði alltaf til til að komast í hvíldarstöðvarnar og hitta fólk.“ Á hverri hvíldarstöð voru kínverskir sjálfboðaliðar, sjúkraliði og tveir breskir læknar. „Það var alltaf gott að hitta þau. Maður fékk aðstoð þegar maður kom inn, þau reyndu að gera líf manns auðvelt þarna inni, hjálpuðu manni að opna bakpokann og sóttu heitt vatn og svona."

Elísabet segir það hafa tekið mest á andlegu hliðina þegar upp komu erfiðar aðstæður. „Á tímabili verkjaði mig rosalega í fæturna, en það var bara líkaminn að segja mér að ég þyrfti að hvíla mig. Ég gerði það og þá lagaðist þetta. Málið er að maður missi ekki hausinn í svona aðstæðum og fari ekki að gera ráð fyrir hinu versta.“

Ekki í boði að gefast upp

Á einum stað í hlaupinu, í mikilli hæð og í miklum kulda um miðja nótt þurftu keppendur að vaða straumharða á. Elísabet blotnaði og frusu fötin hennar í kjölfarið. „Þetta var áskorun, en maður þarf bara að setja hausinn undir sig. Í svona aðstæðum hefur þú ekkert val, þú bara bítur á jaxlinn, reynir að hugsa um eitthvað jákvætt og gera gott úr þessu. Þarna var ég líka nýbúin að klifra yfir einhverja girðingu með gaddavír. Þetta var erfiður staður í hlaupinu en ég hugsaði bara með mér að ég hefði mátt gera ráð fyrir því að þetta yrði erfitt. Maður fer í þetta hlaup og verður bara að taka því sem kemur. Það er ekkert í boði að gefast upp, þú verður að bjarga þér.“

Ljósmynd/Lloyd Belcher/Ultra Gobi 2018

Að öðru leyti naut Elísabet sín í botn í hlaupinu. „Ég bara stillti hausinn inn á þetta. Ég vissi að ég var að fara að vera lengi í þessum aðstæðum að hlaupa, og þá bara gerði ég það. Það er ekki nema það komi eitthvað upp á, þá reynir á.“

Elísabet segir ólíklegt að hún taki þátt í keppni af þessari stærðargráðu aftur. „Þetta er svo langt og mikið og þig langar að klára, svo þú leggur meira í þetta en ef þú værir að fara í styttri vegalengdir. Þetta er eitthvað sem þú gerir sjaldan eða bara einu sinni á ævinni. Ég myndi gjarnan vilja gera þetta aftur, mér fannst þetta það góð upplifun, en líklega geri ég það ekki. Ef ég ætti að fara í eitthvað stærra þá þyrfti það að vera eitthvað mjög áhugavert og spennandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka