Fjölga ferðum strætó árið 2020

Stefnt er að því að strætó aki á 7,5 mínútna …
Stefnt er að því að strætó aki á 7,5 mínútna fresti á háannatíma. Ljósmynd Reykjavíkurborg

Tillaga borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um að Strætó aki á 7,5 mínútna tíðni á háannatímum á stofnleiðum var samþykkt í borgarstjórn í gær með 22 greiddum atkvæðum. Þetta mun hins vegar ekki taka gildi fyrr en í byrjun árs 2020.

Samkvæmt tillögunni beinir borgarstjórn því til stjórnar Strætó að mótaðar verði útfærslur á því að auka aksturstíðnina þannig að Strætó aki á 7,5 mínútna fresti á háannatíma á stofnleiðum.

Borgarstjórn óskar enn fremur eftir upplýsingum um farþegafjölda á hverri leið, núverandi kostnað við hverja leið og mati á því frá stjórninni hversu mikið það mynd auka kostnaðinn að auka tíðnina á hverri leið. Í dag ekur Strætó með 10 mínútna tíðni á þessum leiðum sem umræði en stefnt er að því að leiðir 1, 3 og 6 aki á 7,5 mínútna fresti frá og með ársbyrjun 2020.

Í greinargerð með tillögunni segir að aukin tíðni á stofnleiðum Strætó á háannatímum sé hagkvæm til að auka þjónustu á þeim leiðum þar sem eftirspurnin er hvað mest.

Tvær leiðir í leiðakerfi Strætó aka nú þegar á tíu mínútna tíðni á háannatímum en það eru leiðir 1 og 6. Tvær brottfarir til viðbótar myndu duga til að auka tíðnina í 7,5 mínútu og hugsanlega minnka þörfina fyrir aukavagna. Þá telur borgarstjórn tímabært að auka tíðni á leið 3 sem þjónar íbúum Breiðholts.

Tillagan gerir ráð fyrir samkomulagi við önnur sveitarfélög sem taka þátt í rekstri byggðasamlagsins Strætó þar sem hún krefst fjárútláta frá sveitarfélögunum og kallar því á leiðakerfisbreytingar. Til að tími gefist til að vinna málið innan hefðbundinna tímaramma fjárhagsáætlunargerðar og leiðakerfisbreytinga er stefnt að því að fyrstu áfangar breytinganna taki gildi í ársbyrjun 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka