Vildu ekki tjá sig vegna lögreglurannsóknar

Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, segir ítrekað hafa verið leitað viðbragða …
Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, segir ítrekað hafa verið leitað viðbragða hjá eigendum North Star Apartments. mbl.is/Eggert

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur staðfest að rannsókn sé í gangi vegna kæru á hendur forsvarsmönnum North Star Apartments. Þetta kemur fram í svörum Kveiks við yfirlýsingu Aðalsteins Gíslasonar, eiganda North Star Apartments.

Aðalsteinn sagði í yfirlýsingu sinni fyrr í dag að vinnu­brögð RÚV valdi von­brigðum, þar sem aldrei hafi verið haft sam­band við eig­end­ur North Star Apart­ments og „þeir beðnir um að greina frá sinni hlið máls­ins“.

Forsvarsmenn Kveiks segja Helga Seljan, fréttamann þáttarins, þvert á móti hafa gert ítrekaðar tilraunir til að fá svör við ýmsum spurningum fyrir umfjöllunina. „Fyrir svörum varð eiginkona þín, framkvæmdastjóri Northstar Apartments, Lina Aðalsteinsson. Um það verður ekki deilt,“ segir í bréfi Þóru Arnórsdóttur, ritstjóra Kveiks, til Aðalsteins.

Var Lina m.a. spurð hvort hún viti til þess að eiginmaður hennar hafi veist að Sana Shah, fyrrverandi starfsmanni fyrirtækisins, með ofbeldi fyrir utan verslun Costco og hent í hann innkaupakerru og að síðar hafi hún sjálf heimsótt Shah á vinnustað hans í því skyni að fá hann til að draga kæruna til baka.

Í bréfinu er vísað í svör Linu við fyrirspurn Helga. Hún hafi vísað á lögmann fyrirtækisins og sagt forsvarsmenn þess kjósa að tjá sig ekki því að lögreglurannsókn væri í gangi.

Þetta hafi fulltrúi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu staðfest, en hann hafi sagt að í gangi sé rannsókn vegna kæru á hendur forsvarsmönnum North Star Apartments.

Aðalsteinn sagði í yfirlýsingu sinni þann hluta fréttaskýringaþátt­ar­ins sem fjallaði um North Star Apartments ekki stand­ast skoðun.

Í þættinum var fjallað um erlent vinnuafl hér á landi og m.a. rætt við Shah sem lýsti því m.a. að 1,5 millj­ónir hefðu verið dregn­ar af laun­um hans vegna kostnaðar við at­vinnu­leyfi fyr­ir hann og þrjá aðra, sem ráða átti til fyr­ir­tæk­is­ins. Þá sagðist hann hafa unnið allt að 16 tíma vinnu­dag, en ekki hafa fengið greitt í sam­ræmi við þá vinnu.

Í yfirlýsingu North Star Apartments sagði að ekki væri rétt að þessi upp­hæð hafi verið dreg­in af laun­um hans og að Shah hafi verið sagt upp störf­um vegna þess að hann hafi sýnt öðru starfs­fólki ógn­andi fram­komu og hafi sinnt störf­um sín­um illa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert