Þeir sem í fyrra bjuggu í sveitarfélagi sem lagði á hámarksútsvar greiddu 20.800 krónum meira í útsvar af hverri milljón sem þeir öfluðu en þeir sem bjuggu í sveitarfélagi sem lagði á lágmarksútsvar.
Þetta samsvarar skattalækkun upp á 312.000 krónur fyrir hjón með 15 milljónir í tekjur og því má ætla að þau gætu hækkað kaupið sitt um 495.000 krónur á ári með því að flytja í annað sveitarfélag.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Páll Kolbeins, sem ritar grein í Tíund, blað ríkisskattstjóra, myndi það nema 3,3% kauphækkun.
Uppfært: Í upphaflegri frétt Morgunblaðsins var tekið dæmi af hjónum með 15 milljónir í árstekjur og sagt réttilega að 312.000 krónum munaði á skattgreiðslum þeirra á ári eftir því hvort þau væru búsett í sveitarfélagi með lágmarks- eða hámarksútsvar.
Var því haldið fram að aukning ráðstöfunartekna hjónanna, sem fylgdi því að flytja á milli sveitarfélaganna, jafngilti launahækkun upp á 892.592 krónur á ári. Hið rétta er að hún jafngildir launahækkun upp á rúmar 495.000 krónur á ári, en röng upphæð kom fram í Tíund. Hefur fréttin verið lagfærð samkvæmt þessu.