Fjölskylda Hauks fær hluta gagnanna

Haukur Hilmarsson. Myndin er tekin úr myndskeiði sem útlendingahersveitin International …
Haukur Hilmarsson. Myndin er tekin úr myndskeiði sem útlendingahersveitin International Freedom Battalion birti.

Úrskurðarnefnd upplýsingamála hefur synjað beiðni fjölskyldu Hauks Hilmarssonar um að utanríkisráðuneytið veiti henni aðgang að öllum þeim gögnum sem ráðuneytið hafði neitað henni um. Fjölskyldan fær aftur á móti hluta gagnanna sem henni hafði verið neitað um.

Mbl.is greindi frá því í apríl að utanríkisráðuneytinu hafi ekki verið unnt að afhenda fjölskyldu Hauks öll gögn sem varða mál hans vegna trúnaðar sem þarf að ríkja vegna milliríkjasamskipta, auk þess sem sum gögn sem tengjast málinu innihalda upplýsingar um einstaklinga sem geti ógnað öryggi þeirra.

Úrskurðarnefnd upplýsingamála synjaði beiðni fjölskyldunnar að hluta á þeim grundvelli að annars vegar væri um að ræða upplýsingar um viðkvæma einkahagsmuni einstaklinga, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, og hins vegar að heimilt væri að takmarka aðgang kærenda að upplýsingum um samskipti við önnur ríki og fjölþjóðastofnanir, sbr. 2. tölul. 10. gr. laganna, að því er kemur fram á vefsíðu Stjórnarráðsins.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók fram að um upplýsingarétt kærenda færi eftir 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.

„Fallist var á röksemdir ráðuneytisins varðandi hluta umbeðinna gagna en um önnur vísaði nefndin til þess að ekki væri um viðkvæma einkahagsmuni að ræða eða mikilvægir almannahagsmunir stæðu ekki til beitingar upplýsingalaga. Var því lagt fyrir utanríkisráðuneytið að veita kærendum aðgang að hluta skjalanna en hin kærða ákvörðun var staðfest að öðru leyti,“ segir á vefsíðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert