Vinnumálastofnun er að gera mjög margt í málum erlendra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði og hefur eftirlit með starfsmannaleigum í samræmi við lög segir Unnur Sverrisdóttir, aðstoðarforstjóri Vinnumálastofnunar, í samtali við Morgunblaðið. Hún telur þó að mikilvægt að auka samstarf mismunandi stofnana og leita annarra leiða til að uppræta þau vandamál sem fylgja slíkri starfsemi.
Fjallað var um vinnumansal og slæma stöðu erlendra aðila á íslenskum vinnumarkaði í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV í fyrrakvöld. Rætt var við erlenda aðila sem komu hingað til landsins vegna fagurra fyrirheita en voru á endanum hlunnfarnir af íslenskum vinnuveitendum.
Í þættinum kom fram gagnrýni á eftirlitsstofnanir og því haldið fram að þær nýttu ekki nægilega þau úrræði sem þeim stæðu til boða. Vinnumálastofnun annast eftirlit með starfsmannaleigum og hefur heimildir til að beita viðurlögum samkvæmt lögum um starfsmannaleigur.
Unnur telur að gagnrýnin eigi ekki að öllu leyti rétt á sér enda hafi Vinnumálastofnun oft krafist úrbóta og í hvert skipti sem það sé gert tilkynni Vinnumálastofnun að hún muni beita dagsektum eða stöðva starfsemi verði ekki orðið við kröfum um úrbætur. Í skriflegu svari til Morgunblaðsins segir Unnur að hótanir um dagsektir eða um stöðvun starfsemi dugi nær undantekningalaust til þess að fyrirtæki geri þær úrbætur sem krafist er af hálfu Vinnumálastofnunar.
Hún bendir þó á að Vinnumálastofnun hafi ekki enn gert neinni starfsmannaleigu að greiða stjórnvaldssekt enda hafi slík heimild ekki verið til staðar fyrr en í sumar þegar ný lög tóku gildi 1. ágúst sl. Í eitt skipti, haustið 2017, hefur Vinnumálastofnun kært starfsmannaleigu til lögreglu vegna brota á lögum.
Unnur tekur fram að Vinnumálastofnun geri allt sem í hennar valdi standi til að aðstoða fólk við að leita réttar síns og eigi að sama skapi í góðu samstarfi við stéttarfélög.
Hún telur þó að frekara samstarf stofnana og viðhorfsbreytingu almennings þurfi til að uppræta vandamálin sem fylgja starfsemi erlendra aðila á íslenskum vinnumarkaði.
„Ég held að það sé mikilvægt að við förum að beita öðrum aðferðum líka. Að allir fari að vinna saman við að uppræta þetta. Atvinnurekendur, verkalýðshreyfingin, allir opinberir aðilar og almenningur,“ bætir Unnur við.