Tveir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur komast að ólíkum niðurstöðum varðandi bótaskyldu ríkisins gagnvart sakborningum í svonefndu Aserta-máli. Dómarnir féllu báðir á þriðjudag og voru öðrum sakborninganna dæmdar bætur en bótakröfu hins var hafnað þó að málin væru mjög keimlík.
Þeir Gísli Reynisson, sem dæmdar voru bætur, og Karl Löve Jóhannsson, sem ekki fær bætur, voru tveir af fjórum sakborninga í Aserta-málinu. Voru þeir sakaðir um að hafa brotið gegn fjármagnshöftunum með ólögmætum gjaldeyrisviðskiptum. Málið kom upp í janúar 2010 og voru fjórmenningarnir sýknaðir í Héraðsdómi Reykjaness 2016.
Mbl.is greindi frá því í gær að héraðsdómur hefði gert íslenska ríkinu að greiða Gísla Reynissyni, einum sakborninganna, 1,4 milljónir króna í miskabætur. Bæturnar fær hann fyrir kyrrsetningu á eignum, sem þótti standa of lengi og fyrir ummæli þáverandi yfirmanns efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Dómari í málinu var Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari.
Í dag var svo birtur annar dómur gagnvart öðrum sakborningi í Aserta-málinu, Karli Löve og var dómari þar Kjartan Bjarni Björgvinsson. Hann sýknaði íslenska ríkið af kröfum Karls, sem krafðist 35 milljóna kr. bóta, af sambærilegum ástæðum og Gylfi.
Segir í dóminum í máli Karls Löve að hann hafi engin gögn lagt fram um fjárhagslegt tjón sem rekja megi til til kyrrsetninganna. Hafi Karl Löve í „engu leitast við að sýna fram á hvaða fjárhagslega tjón megi rekja til handtöku hans eða þeirrar húsleitar sem gerð var hjá honum“. Þá sé það mat dómsins að Karl Löve hafi „sjálfur stuðlað að nokkru að þeim þvingunaraðgerðum sem beindust að honum og hans hagsmunum“.
Þá var það einnig mat dómara að Helgi Magnús hafi ekki vegið að æru Karls með orðum sem hann lét falla á blaðamannfundi, þar sem hann sagði sterkar vísbendingar um sekt í málinu. Segir í dóminum að Karl Löve hafi ekki verið formlega tengdur félaginu á þeim tíma, heldur hefði hann setið í stjórn þess um nokkurra mánaða skeið áður en málið kom upp.
Fréttastofa RÚV, sem greindi fyrst frá síðari dóminum, hefur eftir Jóni Magnússyni, lögmanni Karls Löve, að það sé mjög sérstakt að tveir dómarar dæmi hvor í sínu máli þar sem málsatvik eru þau sömu og dómkröfur líka mestmegnis eins. Niðurstöðunni verði því augljóslega áfrýjað.