Landsréttur hafnaði kröfu Ólafs

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Golli

Landsréttur hefur hafnað kröfu Ólafs Ólafssonar, athafnamanns og fyrrverandi hluthafa í Kaupþingi, um að Vilhjálmur H. Vilhjálmsson dómari víki sæti í áfrýjuðu máli gegn honum fyrir réttinum.  Ólafur ætlar að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar.

Málflutningur hófst á mánudaginn.

Í málinu sem um ræðir er tekist á um kröfu Ólafs um endurupptöku á þætti hans í Al Thani-málinu. Fram kemur í tilkynningu frá Ólafi að hann krefjist endurupptöku meðal annars vegna þess að Markús, sem hann segir að sé vinur Vilhjálms, og aðrir sem í dóminum sátu hafi metið sönnunargögn í Al Thani málinu rangt. Þar segir einnig að Ólafur hafi ætíð haldið fram sakleysi sínu í því máli.

„Krafa Ólafs byggðist á að með réttu léki vafi á hæfi Vilhjálms vegna náins vinskapar hans við Markús og vegna neikvæðrar umfjöllunar um Ólaf sem tveir synir Vilhjálms hafa staðið fyrir, Ingi Freyr blaðamaður og Finnur, saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara og síðar starfsmaður rannsóknarnefndar Alþingis sem rannsakaði sölu á eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. Ólafur hefur sent erindi vegna þeirrar málsmeðferðar til Mannréttindadómstóls Evrópu,“ segir í tilkynningunni.

„Það er óviðunandi að ekki sé hægt að treysta á að valdir séu óhlutdrægir dómarar til úrlausnar mála borgaranna. Hlutdrægnin kemur ítrekað upp, núna og áður í máli Árna Kolbeinssonar og Þorgeirs Örlygssonar dómara í Hæstarétti í Al Thani málinu en synir þeirra störfuðu hjá Kaupþingi, þeim banka sem Al Thani málið laut að. Þau mál eru líka til skoðunar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert