Landsréttur hafnaði í dag kröfu Glitnis HoldCo um að staðfesta lögbann sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafði sett á umfjöllun fréttamiðilsins Stundarinnar sem byggð er á gögnum frá Glitni banka. Staðfesti Landsréttur þar með úrskurð héraðsdóms sem hafði einnig hafnað að staðfesta lögbannið. Greint er frá niðurstöðunni á vef Rúv.
Þrotabú Glitnis fór fram á lögbann á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media sem byggði á gögnum innan úr fallna bankanum sem fjölmiðillinn hafði undir höndum. Samþykkti sýslumaðurinn í Reykjavík beiðni þrotabúsins 16. október í fyrra.
Röksemdir Glitnis HoldCo fyrir því að lögbannið verði staðfest eru þær að fjölmiðlarnir hafi lýst því yfir að ekki væri búið að birta allar fréttir úr gögnunum sem þeir hefðu viljað þegar lögbannið var sett á. Þá fari birting gagnanna gegn ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og frekari birting geti leitt til mögulegrar skaðabótaskyldu félagsins.
Stutt var til alþingiskosninga er sýslumaður staðfesti lögbannskröfuna, en umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media hafði að miklu leyti snúist um viðskipti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, við Glitni í aðdraganda hruns íslenska fjármálakerfisins haustið 2008.
Kærðu Stundin og Reykjavík Media úrskurð sýslumanns. Héraðsdómur hafnaði kröfu Glitnis, en Glitnir kærði þá niðurstöðu til Landsréttar. Þar var málið tekið fyrir nýlega, en eins og fyrr segir var niðurstaða þess að Landsréttur hafnaði kröfunni, líkt og héraðsdómur.