Alls hafa 739 einstaklingar slasast í umferðinni árin 2015 til 2017 í slysum sem tengjast ferðum erlendra ferðamanna. Aðeins 8,6% þeirra slasaðra eru Íslendingar, og eru mun fleiri ferðamenn sem slasast af völdum íslenskra vegfarenda. Þetta var meðal þess sem kom fram í erindum og umræðum á umferðarþingi í dag.
Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu, sagði að talsverð aukning hefur orðið á slysum þar sem hópbifreiðar koma við sögu. Hann sagði enn fremur að rútuslys væru ekki lengur undantekningin, að þrjú ár í röð hafa slys á ferðamönnum í rútum orðið áberandi og að brýnt sé að bregðast við þeirri þróun.
Gunnar sýndi fram á tölur þess efnis að fjöldi erlendra ferðamanna sem slasast eða látast hefur verið að aukast undanfarinn ár. Hins vegar benti hann einnig á að fjöldi slasaðra ferðamanna miðað við fjölda þeirra fer minnkandi.
Þá kom einnig fram að aukist hefur fjöldi slasaðra í öllum vegfarendahópum. Gríðarleg fjölgun hefur orðið meðal þeirra sem hafa verið í fólksbifreið og nokkur fjölgun þeirra sem tengjast hópbifreiðum, en sá fjöldi hefur aukist hlutfallslega mest.
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, sagði oft áberandi að ástand hópbifreiða sé ábótavant. Sagði hann dæmi um að hópbifreið hafi lent í slysi og hafi hún að hluta verið hemlalaus og heppni hafi verið að um 70 skólabörn um borð hafi ekki hlotið annað en minniháttar meiðsl. Fram komi í máli Odds að sífellt aukið álag er á lögreglu vegna umferðarslysa og rannsóknum þeim tengdum.
Þegar talin eru upp tilfelli umferðarslysa þar sem einstaklingar slasast kemur í ljós að erlendir ferðamenn eru líklegast til þess að slasast af eigin völdum eða af völdum annarra ferðamanna, samkvæmt Gunnari. Þeim slysum virðast þó fækka nokkuð, en heldur mikil aukning tilfella hefur orðið þar sem erlendir ferðamenn slasast af völdum Íslendinga og það í mun meiri mæli en Íslendingar sem slasast af völdum ferðamanna.
Árin 2015 til 2017 slösuðust 739 einstaklingar í umferðarslysum sem tengdust erlendum ferðamönnum. 497 ferðamenn slösuðust vegna ferðamanna, 178 ferðamenn vegna Íslendinga og 64 Íslendingar vegna ferðamanna, sem er 8,6% . Þá er stærsti hópur ferðamanna sem slasast frá Kína, næst stærsti frá Bandaríkjunum og sá þriðji frá Þýskalandi.
Þegar litið er til fjölda slasaðra miðað við fjölda ferðamanna frá viðkomandi landi kemur í ljós að ferðamenn frá Kína skera sig úr með hlutfall slasaðra langt umfram aðra ferðamenn. Þó hefur dregið verulega úr þeim slysum eftir að komið var á virku samstarfi milli Samgöngustofu og kínverska sendiráðsins, að sögn Einars Magnúsar Magnússonar, sérfræðings hjá Samgöngustofu.
Ekkert land veitir erlendum bílaleiguferðamönnum betri upplýsingar eins og gert er á Íslandi, fullyrti Gunnar Valur Sveinsson, verkefnastjóri hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, í erindi sínu á umferðarþinginu.
Hann sagði hins vegar ýmsar áskoranir til staðar í því að ná til ferðamanna með viðeigandi hætti og benti á að mörg þau smáforrit sem notuð eru hér á landi eru bönnuð í Kína og því Kínverjar ekki með aðgang að þeim. Samkvæmt Gunnari hafi náðst verulegur árangur í samskiptum við kínverska ferðamenn þegar var farið að nota WeChat, sem er kínverkst samskiptaforrit.
Verkefnastjórinn lagði einnig áherslu á að mikilvægt væri að koma á heildarumgjörð um hvernig skal viðurkenna ökuhæfni og réttindi og sagði að athuga ætti hvort aðeins eigi að samþykkja ökuréttindi þeirra sem koma frá ríkjum sem eru aðilar að alþjóðlegum samningum um ökuréttindi.