Örlög Þorfinns óráðin

Þorfinnur karlsefni var íslenskur landkönnuður.
Þorfinnur karlsefni var íslenskur landkönnuður.

Óvíst er hvort bronsstytta myndhöggvarans Einars Jónssonar af íslenska landkönnuðinum Þorfinni karlsefni verður reist að nýju eftir að henni var velt af stalli sínum í Fairmount-garðinum í Fíladelfíuborg í Bandaríkjunum.

Samkvæmt fjölmiðlum þar ytra fannst styttan, sem er rúmlega tveggja metra löng og hátt í tonn að þyngd, liggjandi ofan í Schuylkill-ánni sem rennur framhjá Fairmount-garðinum snemma aðfaranótt þriðjudags. Á vettvangi fundust brot úr styttunni og kúbein sem er talið hafa verið notið til að velta henni af stalli sínum.

Yfirvöld hófu í kjölfarið rannsókn á málinu og voru kafarar sendir út í ána til að skoða aðstæður.

Á þriðjudagskvöld var kranabíll notaður til að draga styttuna úr ánni og kom þá í ljós að höfuðið hafði brotnað af styttunni.

Fíladelfíuborg hefur þegar ráðið fyrirtæki til að lagfæra styttuna en of snemmt er að segja til um hvort hún verði endurreist á sama stað.

Styttan af Þorfinni var smíðuð árið 1918 og var reist 20. nóvember árið 1920. Hún hafði því staðið í Fairmount-garðinum í nærri heila öld.

Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því að styttan hafi áður orðið fyrir skemmdarverkum þegar rauðri málningu var sprautað á andlit hennar á síðasta ári. Þá voru slagorð gegn nasisma einnig rituð á hana auk merkis anarkista.

Talið var að sá gjörningur hefði verið framinn til þess að mótmæla hvítum þjóðernissinnum sem hafa í gegnum tíðina haldið samkomur við styttuna á degi Leifs Eiríkssonar. Yfirvöld hafa enn sem komið er ekki tjáð sig um mögulegar ástæður þess að styttunni var velt ofan í ána.

Þorfinnur karlsefni var íslenskur landkönnuður sem er sagður hafa numið land í Vínlandi og heimildir um hann má finna í Grænlendingasögu og Eiríks sögu rauða. Annað eintak af Þorfinni karlsefni má sjá við Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra í Reykjavík.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka