Hannes Hilmarsson, forstjóri Air Atlanta, sagði í aðsendri grein í Morgunblaðinu í fyrradag að í skýrslu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins frá því í vor, um flutning hergagna með borgaralegum loftförum á árunum 2008-2017, hefði verið lagt mat á hvort þær undanþágur sem veittar hefðu verið vegna hergagnaflutninga samræmdust þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenskra stjórnvalda.
Niðurstaða ráðuneytisins hefði verið að ekkert hefði komið fram um að Flugmálastjórn Íslands eða Samgöngustofa hefðu veitt undanþágur til flutninga á hergögnum í andstöðu við þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins.
Hannes segir í samtali við Morgunblaðið í gær að hann hefði skrifað áðurnefnda grein vegna þess að þeim hjá Air Atlanta hefði þótt á sínum tíma að umfjöllun ákveðinna fjölmiðla hefði verið fjarri því að vera sanngjörn. „Þess vegna vildi ég vekja athygli á skýrslu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um málið, sem kom út í endanlegri mynd 24. maí sl. Við vildum því skilja eftir fótspor okkar um málið, eftir að skýrsla ráðuneytisins hafði hreinsað okkur af öllum áburði sem borinn var á fyrirtækið síðasta vetur,“ segir Hannes.