Agnes Bragadóttir
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að stór vinnufundur Starfsgreinasambandsins hæfist á Selfossi síðdegis, þar sem lögð yrðu drög að sameiginlegri kröfugerð aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins.
„Félögin eru hvert um sig að leggja lokahönd á sína kröfugerð og þess vegna hafa þetta verið mjög annasamir dagar hjá okkur í þessari viku,“ sagði Sólveig Anna.
Hún segir að stjórn Eflingar hafi fundað með stóru samninganefnd Eflingar og haldinn hafi verið einskonar maraþonfundur á þriðjudagskvöld með samninganefndinni, þar sem kröfugerð félagsins var fínpússuð.
Sólveig Anna segist á vissan hátt geta tekið undir það sem Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði um bréf Samtaka atvinnulífsins til verkalýðsfélaga, en hún vilji ekki einblína á það bréf, heldur undirbúning Eflingar og SGS fyrir sameiginlega kröfugerð.