Áhugi á staðgöngumæðrun virtist lítill

„Okkur finnst þetta ekki samræmast íslenskum gildum, og sem feminískt …
„Okkur finnst þetta ekki samræmast íslenskum gildum, og sem feminískt samfélag ættum við að vera komin lengra en þetta.“ Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var frekar rólegt og greinilega fáir sem mættu þarna. Ég rétt stakk hausnum inn í salinn og það var nánast enginn þar inni,“ segir Sandra Kristín Jónasdóttir sem stóð fyrir mótmælum vegna kynningarfundar staðgöngumæðrunarmiðlunarinnar Tammuz Nordic á Hótel Natura í dag.

Hún telur að gestir fundarins hafi ekki verið nema um fjórir, en að fjölmiðlar og starfsfólk hótelsins hafi einnig verið á staðnum og því nokkuð erfitt að átta sig á fjölda þeirra sem mættir voru til þess að kynna sér staðgöngumæðrun á vegum fyrirtækisins. „Það var alla vega mjög fámennt.“

„Í fyrsta lagi er þetta ólöglegt á Íslandi, og svo erum við algjörlega á móti því að hingað komi fyrirtæki sem reynir að fá Íslendinga til að brjóta lögin á þennan hátt og nýta konur í útlöndum til þess að ganga með börn fyrir sig,“ segir Sandra Kristín.

„Okkur finnst þetta ekki samræmast íslenskum gildum, og sem feminískt samfélag ættum við að vera komin lengra en þetta.“

Að sögn Söndru Kristínar var staðsetning fundarins ekki aðgengileg neinum nema þeim sem skráðu sig. „Þeir hafa greinilega gert sér grein fyrir því að þeir ættu ekki að auglýsa staðsetninguna fyrirfram. Það höfðu einhverjir haft samband við lögregluna og bentu þeim á að þarna væri verið að hvetja til lögbrota.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka