Faxaflóahafnir hafa mikinn viðbúnað vegna tankskips sem væntanlegt er um helgina með asfalt til malbikunarstöðvarinnar Höfða í Ártúnshöfða. Skipið heitir Mergus og er 4.077 brúttótonn. Ef áætlanir standast verður skipið tekið inn á morgunflóðinu á morgun, sunnudag.
Eins og fram hefur komið í fréttum er innsiglingin að höfninni í Ártúnshöfða að lokast vegna sandburðar. Þá er dýpið við bryggjuna orðið svo lítið að tankskipið myndi stranda ef það færi alveg að bryggjunni. Starfsmenn Faxaflóahafna hafa brugðist við þessu með því að setja svokallaða „yokohama“-belgi utan á bryggjuna til að halda skipinu frá henni. Belgirnir eru tveir metrar í þvermál.
„Við féllumst á að taka eitt skip inn til viðbótar þannig að Höfði gæti staðið við þá samninga sem þeir hafa gert. Þetta er allra síðasta skipið sem við þjónustum þarna inn,“ segir Gísli Jóhann Hallsson, yfirhafnsögumaður Faxaflóahafna, í Morgunblaðinu í dag. Skipið mun svo yfirgefa höfnina á flóði.